Björn Bergmann til FC Rostov

Skagamaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson hefur verið seldur frá Molde í Noregi til rússneska úrvalsdeildarliðsins FC Rostov. Greint var frá félagaskiptunum á heimasíðu Molde í dag.

Björn er 26 ára gamall og hefur leikið með Molde frá því sumarið 2016 og var markahæsti leikmaður liðsins á liðnu keppnistímabili með 16 mörk. Þá var hann enn fremur valinn í lið ársins í Noregi og tilnefndur sem leikmaður ársins. Á heimasíðu Molde er haft eftir Birni að honum hafi líkað vel að spila með Molde og að hann hafi lært margt af Ole Gunnar Solskjær, þjálfara liðsins. „En þetta er tækifæri til að spila á hærra plani og ég varð að grípa það,“ segir hann.

Björn á að baki níu landsleiki fyrir A landslið Íslans og hefur hann skorað í þeim eitt mark. Var hann fastamaður í íslenska hópnum sem hefur tryggt sér farseðilinn á HM í Rússlandi næsta sumar. Vel að merkja þá er liðið FC Rostov í borginni Rostov, þar sem Ísland mun leika gegn Króatíu í lokaleik riðlakeppninnar á heimsmeistaramótinu 26. júní næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira