„Það halda margir að ég sé vitlausari en ég er“

Handtakið er þétt hjá Sigurði Hrafni Jökulssyni bónda á Vatni þegar hann tekur á móti blaðamanni. „Ég var að vona að þú fyndir einhvern merkilegri en mig til að tala við. Ég er ekkert fyrir þetta sviðsljós þótt ég sé í ferðaþjónustu og svoleiðis. Held kannski að það sé af því að ég kann ekki að bugta mig og beygja, er svo lítið fyrir snobbið. Í veislum kann ég sem dæmi best við að vera bara einhvers staðar úti í horni. En þú ert samt hjartanlega velkomin og ég skal sannarlega tala við þig, þú hefur þetta bara lítið,“ og Sigurður skellihlær að undrunarsvip blaðamanns og bætir við. „Hér er hún María mín, sambýliskonan sem ættuð er frá Bakkakoti í Stafholtstungum. Ég held að hún hafi viljað mig af því að líklega sér hún föður sinn í mér, skrýtinn þverhaus. Má ekki annars bjóða þér kaffi, eða viltu frekar te? Við erum að reyna að vera í hollustunni svona fyrir jólin.“

Ljótur svipur ef nefndur er fiskur
Jörðin Vatn er 4400 hektarar að stærð og liggur meðal annars að Haukadalsá, eða Hauku eins og hún er oft nefnd. Áin kemur úr Haukadalsvatni sem Vatn á einnig hlutdeild í og Sigurður segir að það komi ljótur svipur á þá bræður ef fiskur er nefndur, ekki síst silungur og lax. „Pabbi gat borðað þetta í alla mata svo það var oft bleikur fiskur hér á borðum. Ástandið var næstum eins slæmt og í Borgarfirðinum, þar sem hundarnir struku að heiman ef þeir fundu fiskilykt,“ segir Sigurður hlæjandi.

Bóndinn og sagnamaðurinn Sigurður á Vatni er til viðtals í Jólablaði Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir