Ingvar fyrir utan húsið á Vitateigi 2.

Hefur alltaf verið mikið í félagsstörfum

„Ég er alinn upp á Akranesi en hins vegar fæddur í Brákarey í Borgarnesi 28. apríl 1946 nánar tiltekið í Fúsaskála, sem þar stóð, en það hús var gistiheimili og um leið endastöð Norðurleiðarrútunnar,“ segir Ingvar Ingvarsson fyrrum kennari, skólastjóri, sveitarstjóri og bæjarfulltrúi þegar sest er niður með honum á heimili hans á Akranesi. „Norðurleiðarrútan fór þá ekki lengra á leið sinni að norðan en til Borgarness. Þaðan fóru farþegar með flótabátunum sem voru í ferðum; Laxfossi og síðan Eldborg eftir að Laxfoss strandaði. Akraborg tók svo við 1956. Sá Fúsi, réttu nafni Vigfús sem húsið var kennt við, byggði síðan Hreðavatnsskálann. Ástæða þess að ég fæddist í þessu húsi á þessum stað var sú að pabbi hafði verið fenginn til að setja af stað unglingaskóla í Borgarnesi en hann hafði verið kennari við slíkan skóla á Blönduósi þar sem foreldrar mínir bjuggu. Þegar þau komu í Borgarnes var ekkert annað húsaskjól fyrir þau en í Fúsaskála.

 

Húnvetningur í báðar ættir
Foreldrar Ingvars voru þau Svava Steingrímsdóttir og Ingvar Björnsson kennari. Þau voru bæði Austur-Húnvetningar. „Mamma var dóttir Steingríms Davíðssonar og Helgu Jónsdóttur en afi var skólastjóri á Blönduósi í 40 ár og þar var mamma fædd. Pabbi var hins vegar fæddur á Þröm í Blöndudal, sonur Björns Björnssonar og Kristínar Jónsdóttur. Pabbi var hjá frændfólki sínu Ingvari Pálssyni og Signýju Benediktsdóttur, sem bjuggu lengst af á Balaskarði á Laxárdal A-Hún, frá átta ára aldri. Þau voru mér eins og afi og amma. Ég var skírður í höfuðið á Ingvari Pálssyni og fékk frá honum og konu hans merarfolald í skírnargjöf. Eftir stúdentspróf fór hann sem farkennari í Svínavatnshreppinn. Síðar kenndi hann hjá afa á Blönduósi og kenndi þá m.a. mömmu en það voru tíu ár á milli þeirra. Hann var svo fenginn til að stofna þennan unglingaskóla í Borgarnesi og var þar bara þennan eina vetur en um haustið 1946 fór hann í Kennaraskólann til að afla sér kennararéttinda sem hann hafði ekki þrátt fyrir alla þessa kennslu. Þessa tvo vetur sem hann var þar bjó mamma með okkur drengina, mig og eldri bræður mína; Steingrím og Björn, hjá afa og ömmu á Blönduósi. Á leiðinni norður á Blönduós var búið um mig í þvottabala enda var ég ekki nema um mánaðargamall þegar við fórum norður. Ég á eina systur, Helgu sem er fimm árum yngri en ég og síðan er Kristinn yngstur okkar systkina, fæddur 1962.“

Rætt er við Ingvar Ingvarsson í Jólablaði Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir