Birgir að störfum við olíubílinn.

„Búinn að keyra alla vega tvisvar til tunglsins”

Nýverið hætti einn reynslumesti olíubílstjóri landsins störfum hjá Olíudreifingu eftir 43 ára starf. Hér er um að ræða Mýramanninn Birgi Pálsson sem hefur ekið með olíuna – súrefni hagkerfisins – milljónir kílómetra á þessum mörgu árum. Skessuhorn heimsótti þennan glaðbeitta og söngelska bílstjóra á dögunum og litið var yfir farinn veg.

Mýramaður í húð og hár
Birgir er frá bænum Álftártungu sem áður tilheyrði Álftaneshreppi, nú hluti Borgarbyggðar. „Foreldrar mínir hétu Páll Þorsteinsson og Gróa Guðmundsdóttir en þau tóku við búi í Álftártungu árið 1937 af foreldrum mömmu, þeim Guðmundi Árnasyni og Sesselju Þorvaldsdóttur. Mamma var sem sagt fædd á bænum. Pabbi ólst aftur á móti upp á Hundastapa, en honum var komið þar fyrir í fóstur hjá Guðmundi Jónssyni og Steinunni Jónsdóttur. Hann missir síðan fósturforeldra sína aðeins 12 ára gamall. Uppeldissystir hans Anna Guðmundsdóttir og hennar maður Þórður Jónsson taka hann þá að sér og búa í Skálanesi, Miklaholti og loks Álftártungukoti. Kominn í Álftártungukot kynnist hann mömmu, enda bara lækurinn á milli bæjanna,” segir Birgir sem er því Mýramaður í húð og hár.
Páll og Gróa eignuðust sjö börn og er Birgir fimmti í röðinni. „Það var mikið líf hjá okkur á bænum og gaman að alast upp. Í Álftártungu voru bæði kindur og kýr og mig minnir að fjártalan hafi eitt sinn farið í um 1000 á tímabili. Við krakkarnir byrjuðum snemma í bústörfunum, ég man allavega ekki eftir neinu öðru en að taka þátt í búskapnum,” heldur Birgir áfram að rifja upp.

 

Viðtal við bílstjórann og Mýramanninn Birgi Pálsson er að finna í Jólablaði Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir