Sveitarstjórn Borgarbyggðar kvaddi á fundinum í gær Ragnar Frank Kristjánsson VG sem brátt tekur við starfi sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs. Hér er sveitarstjórnin ásamt sveitarstjóra að loknum hátíðarfundi í mars síðastliðnum þegar 150 ára afmæli Borgarbyggðar var minnst með fundi í Kaupangi, elsta húsi bæjarins. Ljósm. mm.

Samstaða í sveitarstjórn um afgreiðslu fjárhagsáætlunar

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir 2018 og þriggja ára áætlun til 2021 var tekin til síðari umræðu og afgreiðslu á fundi sveitarstjórnar í gær. Fjárhagsáætlunin var samþykkt með níu samhljóða atkvæðum. Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur á næsta ári verði 113 m.kr. hjá A og B hluta sveitarsjóðs. Veltufé frá rekstri er áætlað 379 m.kr. eða 9,7%. „Svigrúm hefur skapast til að hefja langþráðar framkvæmdir og þarfar endurbætur á húsnæði leik- og grunnskóla án þess að gert sé ráð fyrir lántöku á árinu 2018,“ segir í tilkynningu frá sveitarstjórn. „Undanfarin þrjú ár hafa skuldir verið greiddar niður og engin ný lán verið tekin. Því hafa skuldir lækkað hratt og er áætlað að skuldahlutfall A og B hluta sveitarjóðsverði 113,8% í árslok 2018 og muni lækka áfram á næstu þremur árum.“ Langtímalán verða greidd niður um 244 m.kr. og ekki er gert ráð fyrir nýrri lántöku á næsta ári. Afborganir skulda hafa lækkað um 30 m.kr. á þremur árum sem eykur svigrúm til þjónustu, viðhalds eða fjárfestinga á vegum sveitarfélagsins.

 

Skólabyggingar og ljósleiðari stærtu verkefnin

Fjármunum verður forgangsraðað í uppbyggingu skólamannvirkja, stórbætt fjarskipti í dreifbýli og nýjar götur og gangstíga.  „Álagningarhlutfall fasteignagjalda er lækkað bæði hvað varðar íbúðarhúsnæði sem og atvinnuhúsnæði þannig að hækkun á fasteignamati leiðir ekki til þeirrar hækkunar sem annars hefði orðið. Árið 2018 er ráðgert að framkvæma fyrir 564 m.kr.“ Stærsta einstaka framkvæmdin er viðbygging á fjölnota matsal við Grunnskóla Borgarness og nauðsynlegar endurbætur sem gera verður á eldra húsnæði meðal annars vegna leka og að þar hafði greinst mygla í húsnæði. Útboð vegna verksins mun fara fram í janúarbyrjun og framkvæmdir hefjast í kjölfarið. „Á framkvæmdaáætlun til fjögurra ára eru samtals 560 m.kr. fráteknar í framkvæmdina. Ljóst að endurmeta þarf þá fjárhæð þegar allt mat á endurbótum er komið fram sem og þegar niðurstöður útboðs liggja fyrir. Það er verkefni sem fara verður í í janúar og febrúar á komandi ári,“ segir í frétt Borgarbyggðar.

Næststærsta framkvæmdin sem ráðist verður í á árinu er flutningur leikskólans Hnoðrabóls frá Grímsstöðum á Kleppjárnsreyki og gerir framkvæmdaáætlun ráð fyrir 160 milljónum króna í þá framkvæmd sem dreifist á tvö ár.

Stærsta nýja verkefnið á framkvæmdaáætlun er hins vegar lagning ljósleiðara í dreifbýli en frumhönnun og kostnaðarmati er þegar lokið. Sveitarfélagið mun leggja allt að 100 milljónir króna árlega í verkefnið á næstu þremur árum, eða 300 m.kr. Hér er um að ræða verkefni sem mun hafa mikil áhrif á búsetuumhverfi í dreifbýli sveitarfélagsins. „Vonir standa til að ráðist verði í sambærilegt átaksverkefni á næstunni er varðar lagningu þriggja fasa rafmagns.“ Auknir fjármunir verða lagðir í gatnagerð á næstu árum vegna nýrra lóða í Bjargslandi og á Hvanneyri, samtals 80 milljónir á næstu fjórum árum.

Auk ofangreindra þátta er auknum fjármunum varið til endurbóta á ýmsum eignum, götum og gangstéttum í umsjón sveitarfélagsins. Almennt viðhaldsfé fasteigna er verulega meira en mögulegt var á fyrri árum.

Langstærsta verkefni Borgarbyggðar á næsta ári verður viðbygging og lagfæringar á eldra húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi. Skóflustunga að byggingunni var tekin í mars síðastliðnum af yngstu og elstu nemendum skólans. Ljósm. mm.

Líkar þetta

Fleiri fréttir