Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, við hraðhleðslustöð Norðuráls á Grundartanga. Ljósm. Norðurál.

Norðurál fjölgar umhverfisvænum bílum

Norðurál á Grundartanga hefur á þriðja tug rafknúinna farartækja í sinni þjónustu sem flytja starfsmenn og vörur á athafnasvæði álversins. Nú býr fyrirtækið einnig í haginn fyrir vaxandi fjölda starfsmanna sem aka til og frá vinnu á eigin rafknúnum ökutækjum. Í þessu skyni hafa verið sett upp sérstök græn bílastæði með raftenglum á álverslóðinni þar sem starfsmönnum gefst kostur á að hlaða rafbíla sína. „Markmiðið er að minnka kolefnisspor, stuðla að vistvænum samgöngum og gera góðan vinnustað enn betri. Orkan er starfsmönnum að endurgjaldslausu,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Norðurál er í hópi íslenskra fyrirtækja og stofnana sem skrifuðu undir yfirlýsingu um loftslagsmál í tengslum við loftlagsráðstefnuna í París. Þar með skuldbatt fyrirtækið sig til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum. Norðurál hefur náð góðum árangri á þessu sviði og er í hópi þeirra álvera sem best standa sig á heimsvísu. Vel hefur tekist að hámarka nýtingu rafskauta, halda framleiðslunni stöðugri og lágmarka þar með losun lofttegundanna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir