Vitakaffi á Akranesi verður breytt í írskan bar

Eigandaskipti hafa orðið á Vitakaffi við Stillholt á Akranesi, en Bjarni Kristófersson hefur nú selt kaffihúsið og ætlar að snúa sér að öðru. Skagamaðurinn Steinþór Árnason er nýr eigandi og hyggst hann opna þar írskan pöbb á næsta ári. Um er að ræða svokallaðan „gastropub“ þar sem boðið verður upp á fínni pöbba-matseðil. „Pöbbinn mun fá nafnið The Irish bar og ég stefni á að staðurinn byrji að taka á sig nýja mynd í febrúar og fái þá nýja nafnið. Heildarbreytingin mun þó ekki verða gerð fyrr en í júní þegar ég hef lokið minni vinnu hér í Grundaskóla,“ segir Steinþór þegar blaðamaður heyrði í honum, en hann er yfir mötuneytinu í Grundaskóla í vetur.

Steinþór segir hugmyndina að breyta Vitakaffi í írskan pöbb einfaldlega hafa komið því honum þótti vanta slíkan pöbb á Akranesi. „Þetta lá nú beinast við fannst mér. Írska bari er að finna víða, en ekki á Akranesi í írska „mekkanu“ og ég varð auðvitað að bæta úr því,“ segir hann og hlær. „Stefnan er að bjóða upp á fínni pöbbamat í írskum stíl, t.d. pylsur og kartöflumús, írska böku, pottrétt, fisk og franskar og aðra þekkta rétti. Einnig verður lifandi tónlist á fimmtudögum, föstudögum og laugardögum og að sjálfsögðu sýnum við frá öllum helstu íþróttaviðburðum. Það er ýmislegt sem ég hef í huga fyrir nýja staðinn en ekki fyrr en næsta sumar,“ segir Steinþór.

Nánar er rætt við Steinþór Árnason í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir