Stjórn nemendafélagsins vinnur að undirbúningi útvarpsins.

Útvarp Óðal fer í loftið í næstu viku

Að stilla útvarpstækin á FM 101,3 er orðinn fastur liður í aðdraganda jólanna í Borgarnesi. Á þeirri tíðni ómar Útvarp Óðal í Borgarnesi ár hvert um miðjan desembermánuð. Að þessu sinni hefjast útsendingar mánudaginn 11. desember og standa yfir alla vikuna þar til síðdegis á föstudag. Það er nemendafélag Grunnskólans í Borgarnesi sem stendur að útsendingunum undir handleiðslu kennara. Skessuhorn hitti Marinó Þór Pálmason, útvarpsstjóra og formann nemendafélagsins og Kristínu M.Valgarðsdóttur, deildastjóra í Grunnskólanum í Borgarnesi, í síðustu viku og ræddi við þau um útvarpið. „Þessi útsending markar 25 ára afmæli útvarpsins. Í tilefni þess verður á dagskrá tveggja tíma afmælisþáttur þar sem farið verður yfir sögu útvarpsins og rætt m.a. við fjölmiðlafólk sem steig sín fyrstu skref einmitt í Útvarpi Óðali,“ segja þau Kristín og Marinó. „Þar að auki verða seldir bollar merktir útvarpinu og lagt meira í lokahófið í tilefni afmælisins,“ bætir Kristín við. Að öðrum kosti segja þau að útsendingarnar verði með hefðbundnu sniði. „Við erum einmitt núna að taka upp bekkjarþætti yngri bekkjanna. Krakkar í 1.-7. bekk taka upp sína þætti en 8.-10. bekkur fer í beina útsendingu,“ segir Marinó, en beina útsendingu segir hann einmitt hafa verið stærstu áskorunina við útvarpsútsendingarnar. „Þegar ég prófaði það fyrst þá var ég smá tíma að komast yfir feimnina. En eftir smá stund þá gleymir maður að það séu allir að hlusta og þá er þetta bara eins og að spjalla við vini sína heima í stofu,“ segir hann.

Nánar í Skessuhorni vikunnar sem kom út í gær.

Líkar þetta

Fleiri fréttir