Kristen McCarthy var eini leikmaður Snæfells sem náði sér eitthvað á strik gegn Stjörnunni. Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfell lá gegn Stjörnunni

Snæfell tapaði fyrir Stjörnunni, 75-53, í fremur ójöfnum leik þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var í Garðabænum og Snæfellskonur mættu fáliðaðar til leiks, með aðeins átta leikmenn á skýrslu. Það skipti engu í upphafi leiks. Snæfell hafði heldur yfirhöndina framan af fyrsta leikhluta, leiddi í byrjun leiks áður en Stjarnan jafnaði. Með góðri rispu undir lok fjórðungsins náði Stjarnan sjö stiga forskoti, 20-13. Liðunum gekk illa að skora framan af öðrum leikhluta en um hann miðjan spýttu Stjörnukonur í og voru komnar 21 stigi yfir þegar hálfleiksflautan gall, 44-23.

Stjarnan réði áfram lögum og lofum í leiknum í síðari hálfleik en Snæfellskonur virkuðu hálf andlausar og náðu sér aldrei á strik. Stjarnan hafði 28 stiga forystu að loknum þriðja leikhluta, 63-35. Snæfellskonur tóku aðeins við sér í fjórða leikhluta og minnkaði muninn í 20 stig en voru aldrei líklegar til að þjarma að heimaliðinu. Stjarnan sigraði að lokum með 22 stigum, 75-53.

Kristen McCarthy var atkvæðamest í liði Snæfells. Hún skoraði 30 stig og reif niður 18 fráköst. Berglind Gunnarsdóttir skoraði ellefu stig og tók fimm fráköst en aðrar höfðu minna.

Danielle Rodrigues var allt í öllu í liði Stjörnunnar og var aðeins einni stoðsendingu frá að setja upp þrennu. Hún skoraði 29 stig, tók tíu fráköst og gaf níu stosðendingar. Ragna Margrét Brynjarsdóttir var með 15 stig og ellefu fráköst og Bríet Sif Hinriksdóttir skoraði 13 stig.

Snæfell situr í 7. og næstneðsta sæti deildarinnar með tíu stig eftir tólf leiki, tveimur stigum  á eftir næstu þremur liðum fyrir ofan. Í næsta deildarleik mætir Snæfell liði Vals á útivelli, miðvikudaginn 13. desember. Í millitíðinni er hins vegar leikur í átta liða úrslitum Maltbikars kvenna. Sá leikur er einnig gegn Val og fer fram í Stykkishólmi á sunnudaginn, 10. desember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir