Ólína Gunnlaugsdóttir.

Opið í vetur í Samkomuhúsinu á Arnarstapa

Í Samkomuhúsinu á Arnarstapa á Snæfellsnesi er nú í fyrsta skipti reglulegur opnunartími yfir vetrartímann. Opið er mánudaga til laugardaga frá klukkan 12-19, en lokað á sunnudögum. Blaðamaður heyrði í Ólínu Gunnlaugsdóttur framkvæmdastjóra í Samkomuhúsinu. „Við höfum alltaf verið meira og minna með opið yfir vetrartímann en við höfum aldrei verið með svona fastan opnunartíma áður, meira bara út frá eftirspurn. Fjöldi ferðamanna hefur aukist verulega yfir veturinn og því alveg orðin forsenda að hafa bara fastan opnunartíma allt árið. Vinkona mín og sveitungi, Guðný í Syðri-Knarrartungu, er búin að vera hér með mér síðan í haust og verður alla veganna í vetur. Það gerir gæfumuninn að vera tvær saman, upp á að hafa reglulegan opnunartíma, og geta þá skipst aðeins á,“ segir Ólína og bætir því við að ferðamannastraumurinn sé orðin mun jafnari yfir árið heldur en hann var fyrir örfáum árum. „Við finnum að það er töluverð aukning yfir veturinn og þó ég sé ekki alveg viss finnst mér fækkun hafa verið yfir sumartímann. Þetta er því meira að jafnast út yfir árið. Umferðin hér til okkar er mjög óútreiknanleg. Suma daga koma afskaplega fáir en aðra daga eru kannski að koma allt að 70 manns. Auðvitað er mest þegar hópar koma en það eru stundum tveir til þrír hópar sama daginn en svo enginn þann næsta. Þá eru líka alltaf töluvert margir að ferðast á eigin vegum sem koma til okkar,“ segir Ólína.

Nánar er rætt við Ólínu í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir