Forsetinn færði Ólafsdalsfélaginu gamla ljósmynd að gjöf. Hér er meðal annarra Rögnvaldur Guðmundsson formaður Ólafsdalsfélagsins, forsetahjónin og Gunnar Geir Vigfússon ljósmyndari. Í ríflega sjötíu ára sögu lýðveldisins Íslands hafa tveir menn séð að mestu um myndatöku fyrir forsetaembættið og stjórnarráðið. Það eru feðgarnir Vigfús Sigurgeirsson og Gunnar Geir Vigfússon. Vigfús faðir Gunnars Geirs tók myndina sem forsetinn færði Ólafsdal að gjöf. Ljósm. Steina Matt.

Myndir frá fyrri degi opinberrar heimsóknar forseta Íslands í Dalina

Guðni Th Jóhannesson forseti Íslands er nú í opinberri heimsókn í Dalabyggð ásamt eiginkonu sinni Elizu Reid. Heimsóknin heldur áfram í dag og hefst með því að forsetinn og fylgdarlið hans aka um Skarðsströnd og Fellsströnd og heimsækja fólk og koma við á nokkrum merkisstöðum beggja vegna Klofnings. Fyrir hádegi verður heimsókn í Auðarskóla en forsetinn og föruneyti er þvínæst boðið í mat í skólanum. Eftir hádegi verður brunað upp á Eiríksstaði í Haukadal þar sem Sigurður á Vatni mun leiðsegja gestum. Eftir það verður komið við á Kvennabrekku þar sem skilti um Árna Magnússon fræðimann og handritasafnara verður afhjúpað. Sauðfjárbúið á Kringlu verður sótt heim og þvínæst komið við á Silfurtúni í Búðardal. Klukkan 17:00 í dag lýkur dagskrá heimsóknarinnar með fjölskylduskemmtun í Dalabúð. Boðið verður upp á veitingar úr héraði og fjölbreytt skemmtiatriði.

Vel var tekið á móti gestunum í gær. Heimsóknin hófst með innliti á hjúkrunarheimilið Fellsenda í Miðdölum. Eftir það var komið við hjá Þorgrími, Helgu og fjölskyldu á Rjómabúinu á Erpsstöðum og boðið upp á skyr og mysudrykki. Þvínæst lá leiðin í Mjólkurstöðina í Búðardal þar sem ostagerðin var skoðuð.

Í Leifsbúð í Búðardal var opinn fundur um framtíðaráform ferðaþjónustu í Dölum. Sveinn Pálsson sveitarstjóri ávarpar fundinn, Rögnvaldur Guðmundsson formaður Ólafsdalsfélagsins sagði frá áformum í Ólafsdal og Svavar Gestsson kynnti gyllta söguhringinn. Sigríður Margrét Guðmundsdóttir frá Landnámssetri Íslands sagði gestunum frá fyrirhuguðu Vínlandssetri sem stendur til að koma á fót í Leifsbúð. Að lokum voru kaffiveitingar og spjall við gestina. Dagskránni í gær lauk með heimsókn á Byggðasafnið að Laugum í Sælingsdal.

Svavar Gestsson og Rögnvaldur Guðmundsson rýna í Ólafsdalsmyndina. Fjær stendur Ingveldur Guðmundsdóttir sem sæti á í sveitarstjórn Dalabyggðar. Ljósm. sm.

Heimasætan á Erpsstöðum, Hólmfríður Tania, færð forsetanum að gjöf höfuðfat eða „buff“ í safnið. Ljósm. sm.

Forsetahjónin skoða Mjólkursamsöluna í Búðardal. Ljósm. sm.

Þessi kona er búsett á Fellsenda og málar af ástríðu. Hún bauð forsetahjónunum upp á sýningu í íbúð sinni. Ljósm. sm.

Forstöðukona Hjúkrunarheimilisins á Fellsenda fór yfir sögu heimilisins.

Fyrri degi forsetaheimsóknarinnar lauk á Byggðasafni Dalamanna. Gestir fengu m.a. barnaleiðsögn að hætti Byggðasafns Dalamanna. Sigríður Ósk segir hér sögu kirkjubekkjar úr Hjarðarholtskirkju í Laxárdal. En kirkjubekkurinn fékk framhaldslíf í yfir 100 ár sem eldhúsbekkur á Hóli í Hörðudal. Ljósm. Halla Sigríður Steinólfsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir