Carmen Tyson-Thomas í stífri gæslu í leiknum á móti Keflavík. Ljósm. Kvennakarfa Skallagríms.

Meistararnir of stór biti fyrir Skallagrím

Skallagrímskonur urðu að játa sig sigraðar, 73-87, þegar þær tóku á móti Íslands- og bikarmeisturum Keflavíkur í Domino‘s deild kvenna í gær.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks, liðin skiptust á að skora og að leiða. Leikurinn var hraður og bæði lið léku vel. Keflavík leiddi með þremur stigum að upphafsfjórðungnum loknum, 19-22. Það sama var uppi á teningnum framan af öðrum leikhluta. Skallagrímur náði smá rispu og komst yfir áður en Keflavík svaraði í sömu mynt og tók forystuna að nýju. En um miðjan leiklutann fóru gestirnir að keyra upp hraðann í leiknum. Keflavíkurkonur hittu vel og mikil stemning einkenndi leik þeirra. Skallagrímsliðið náði ekki að halda í við þær á lokaspretti fyrri hálfleiks og voru ellefu stigum undir í hléinu, 34-45.

Gestirnir komu gríðarlega ákveðnir til síðari hálfleiks og tóku öll völd á vellinum. Keflavík komst 20 stigum yfir um miðjan þriðja leikhluta en með góðri rispu náðu Skallagrímskonur að laga stöðuna fyrir lokafjórðunginn, 52-65. Skallagrímskonur náðu ekki að gera atlögu að sigrinum það sem eftir lifði leiks. Þær minnkuðu muninn í tíu stig seint í leiknum en nær komust þær ekki. Keflavíkurliðið var ákveðið í öllum sínum aðgerðum og kláraði leikinn, 73-87.

Carmen Tyson-Thomas var atkvæðamest í liði Skallagríms með 31 stig, 14 fráköst og sex stoðsendingar. Jóhanna Björk Sveinsdóttir skoraði 18 stig, tók tíu fráköst og gaf fimm stoðsendingar og Gunnhildur Lind Hansdóttir var með níu stig.

Brittany Dinkins setti upp þrennu í liði Keflavíkur, skoraði 22 stig, gaf ellefu stoðsendingar og tók tíu fráköst. Thelma Dís Ágústsdóttir var með 15 stig og tólf fráköst, Erna Hákonardóttir 13 stig og Salbjörg Ragna Sævarsdóttir tíu stig og fimm stoðsendingar.

Skallagrímur er í 6. sæti deildarinnar með tólf stig eftir tólf leiki, jafn mörg og næstu tvö lið fyrir ofan en tveimur stigum meira en Snæfell í sætinu fyrir neðan. Næst leikur Skallagrímur í deildinni miðvikudaginn 13. desember næstkomandi, þegar liðið tekur á móti Stjörnunni. Í millitíðinni mætir Skallagrímur hins vegar ÍR í átta liða úrslitum Maltbikars kvenna. Sá leikur fer fram í Borgarnesi á sunnudaginn, 10. desember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir