Handhafar Umhverfisviðurkenninga Akraneskaupstaðar 2017 ásamt fulltrúum bæjaryfirvalda og valnefndar að afhendingu lokinni. Ljósm. Skessuhorn/kgk

Hlutu umhverfisviðurkenningar Akraneskaupstaðar

Umhverfisviðurkenningar Akraneskaupstaðar 2017 voru veittar síðdegis í gær. Viðurkenningarnar eru veittar einstaklingum og hópum í fjórum flokkum; falleg einbýlishúsalóð, snyrtileg fyrirtækjalóð, hvatningarverðlaun og fyrir tré ársins. Valið fór þannig fram að óskað var eftir tilnefningum frá íbúum og valnefnd fengin til starfa. Hana skipuðu Helena Guttormsdóttir, lektor og brautarstjóri umhverfisskipulags hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, Jón Guðmundsson garðyrkjufræðingur og Belinda Eir Engilbertsdóttir landslagsarkitekt.

Hvatningarverðlaun komu í hlut Hallveigar Skúladóttur og Stefáns Jónssonar fyrir endurbætur á Mánabraut 9 og Mánabraut 11. „Um er að ræða fallegar og vel heppnaðar endurbætur tveggja ólíkra húsa af virðingu fyrir upprunalegum byggingarstíl,“ segir m.a. í rökstuðningi valnefndar.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi veittist viðurkenning fyrir snyrtilega fyrirtækjalóð. Segir í rökstuðningi valnefndar að stofnunin hafi verið framúrskarandi þegar kemur að viðhaldi og umhirðu bygginga og lóða sinn og sé öðrum fyrirmynd.

Unnur Guðmundsdóttir og Valur Heiðar Gíslason fengu viðurkenningu fyrir fallega einbýlishúsalóð á Dalsflöt 1. „Unnur og Valur hafa lyft Grettistaki á skömmum tíma á Dalsflöt 1. Þau hafa sinnt viðhaldi og umhirðu húss og lóðar frá upphafi með miklum sóma og eru öðrum til fyrirmyndar,“ segir í rökstuðningi. Þá segir enn fremur að útfærsla lóðarinnar sé sérlega áhugaverð, tenging milli einka- og almenningsrýmis vel heppnuð og fjölbreytt val fjölæringa og þekjuplantna, runna- og trjágróðurs auki sjónræn gæði göturýmis.

Að lokum var veitt viðurkenning fyrir tré ársins og er það í annað sinn sem slíkt er gert. Að þessu sinni varð fyrir valinu fallegur hlynur við Vesturgötu 42, en íbúar og eigendur lóðar eru Steinþóra Guðrún Þórisdóttir og Baldvin Kristjánsson og Magnús Vagn Benediktsson. Líklegast er um garðahlyn að ræða og eru tilgátur um að hann hafi verið gróðursettur árið 1958, en þá bjuggu í húsinu hjónin Niels Finsen og Jónína Finsen. Tréð er einstofna og fyllir trjákrónan nær alla lóðina og yfir á þá næstu. „Algjört augnakonfekt, stórt og kröftugt. Því miður sést það ekki frá götu en fólk í aðliggjandi lóðum baka til við húsið njótum fegurðar þess,“ var m.a. sagt um tréð þegar það var tilnefnt.

Að afhendingu umhverfisviðurkenninga lokinni var boðið upp á kaffi og köku og áttu viðtakendur og fulltrúar Akraneskaupstaðar saman notalega stund.

Líkar þetta

Fleiri fréttir