Viktor Marinó Alexandersson var iðinn við kolann í sigri Snæfells. Ljósm. sá.

Snæfell vann öruggan sigur á Fjölni

Snæfell vann góðan sigur á Fjölni, 100-85, þegar liði mættust í Stykkishólmi í gær. Snæfell hafði undirtökin nánast frá fyrstu mínútu og sigraði að lokum örugglega.

Snæfellingar byrjuðu betur, komust í 21-10 strax um miðjan upphafsfjórðunginn en gestirnir náðu þó að minnka muninnn í fimm stig áður en leikhlutinn var úti, 29-24. Annar fjórðungur fór hægt af stað og lítið var skorað fyrstu mínútur hans. Þegar hann var hálfnaður tók Snæfell við sér og komst í 40-26 og leiddi örugglega þar til hálfleiksflautan gall. Hólmarar höfðu 16 stiga forskot í hléinu, 55-39.

Snæfellingar réðu lögum og lofum í síðari hálfleik. Þeir voru komnir 25 stigum yfir um miðjan þriðja leikhluta, 69-44 og möguleikar gestanna á að fá eitthvað út úr leiknum voru hverfandi. Snæfell leiddi með 22 stigum fyrir lokafjórðunginn, 80-58 og héldu öruggu forskoti allt til leiksloka. Það var ekki fyrr en síðustu mínútur leiksins að gestirnir náðu aðeins að klóra í bakkann. Þeir komust hins vegar aldrei nær en sem nam 15 stigum þegar lokaflautan gall. Snæfell sigraði með 100 stigum gegn 85.

Christian Covile skoraði 27 stig fyrir Snæfell og tók sjö fráköst. Viktor Marinó Alexandersson var með 22 stig og fimm stoðsendingar, Geir Elías Úlfur Helgason 16 stig og Jón Páll Gunnarsson 13 stig.

Samuel Prescott jr. skoraði 36 stig og tók sex fráköst fyrir Fjölni og Sigvaldi Eggertsson var með 31 stig og sjö fráköst. Aðrir Fjölnismenn náðu ekki tveggja stafatölu í stigaskori.

Með sigrinum lyfti Snæfell sér upp í 2. sæti deildarinnar með 16 stig eftir ellefu leiki, tveimur stigum minna en topplið Skallagríms en tveimur stigum betur en næstu lið fyrir neðan. Snæfell spilar næst föstudaginn 8. desember næstkomandi þegar liðið mætir Hamri í Hveragerði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir