Marcus Dewberry er kominn aftur til liðs við ÍA eftir fjarveru af persónulegum ástæðum. Ljósm. jho.

Skagamenn enn án stiga

Skagamen fóru suður í Hveragerði og mættu Hamri í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöld. Eftir nokkuð jafnan en kaflaskiptan leik varð ÍA að lokum að sætta sig við tap, 95-88.

Hvergerðingar höfðu undirtökin í upphafsfjórðungnum og skoruðu mikið en Skagamenn reyndu eftir fremsta megni að halda í við þá. Hamar leiddi að fyrsta leikhluta loknum með átta stigum, 34-26. Skagamenn sneru taflinu sér í vil í öðrum leikhluta og komust yfir um miðbik hans, 40-36. Þeir héldu forystunni allt til hálfleiks en Hamarsmenn fylgdu þeim eins og skugginn. Staðan í hléinu var 43-45, ÍA í vil.

Aftur snerist leikurinn við í upphafi síðari hálfleiks. Heimamenn komust yfir snemma í þriðja leikhluta en Skagamenn fylgdu fast á eftir. Á seinni hluta fjórðungsins fóru heimamenn hins vegar að síga lengra fram úr en með góðri rispu á lokamínútu leikhlutans sáu Skagamenn til þess að forskotið var ekki meira en sjö stig fyrir lokaleikhlutann, 70-63. ÍA gerði harða hríð að liði Hamars í lokafjórðngnum en vantaði herslumuninn upp á að ná forskotinu. Skagamenn minnkuðu muninn í þrjú stig um miðjan fjórðunginn en komust ekki nær. Hamar vann að endingu með sjö stigum, 95-88.

Marcus Dewberry var atkvæðamestur í liði ÍA með 30 stig, sex fráköst og sex stoðsendingar. Reynsluboltinn Jón Orri Kristjánsson var iðinn við kolann sömuleiðis, skoraði 20 stig og tók fimm fráköst.

Julian Nelson var stigahæstur í liði Hamars með 29 stig og átta fráköst þar að auki. Larry Thomas var með 21 stig og Jón Arnór Sverrisson 16 stig, tólf fráköst og sex stoðsendingar.

Skagamenn sitja enn á botni deildarinnar án stiga eftir ellefu leiki, tveim stigum á eftir FSu og fjórum stigum á eftir Gnúpverjum. Næst mæta Skagamenn einmitt síðarnefnda liðinu. Sá leikur fer fram á Akranesi á föstudaginn, 8. nóvember næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir