Misstu af sigrinum í síðari hálfleik

Eftir góðan útisigur á Fjölni, 98-101 í spennandi leik síðastliðinn föstudag, tók Skallagrímur á móti Hamri í 1. deild karla í körfuknattleik í gær. Eftir jafnan fyrri hálfleik tók Hamarsliðið öll völd á vellinum í þeim síðari og sigraði örugglega, 82-104.

Skallagrímsmenn höfðu heldur undirtökin í fyrsta leikhluta, komust í 12-4 snemma leiks og héldu nokkura stiga forskoti lengst af. Undir lok upphafsfjórðungsins komust gestirnir hins vegar upp að hlið Borgnesinga sem leiddu þó með einu stigi eftir fyrsta, 24-23. Leikurinn var í járnum í öðrum fjórðungi. Liðin skiptust á að leiða og aldrei munaði meira en tveimur stigum á liðunum. Hamar var stigi yfir í hálfleik, 50-51.

Gestirnir höfðu undirtökin fyrst eftir hléið en Skallagrímsmenn gættu þess að hleypa þeim ekki of langt frá sér. Um miðjan þriðja leikhluta leiddi Hamar með sex stigum, 58-64 en þá settu þeir í fluggírinn. Með góðum kafla undir lok leikhlutans náðu þeir 17 stiga forskoti fyrir lokafjórðunginn, 66-83 og á brattann að sækja fyrir Skallagrím. Borgnesingum tókst ekki að gera atlögu að sigri í leiknum í fjórða leikhluta. Gestirnir héldu öruggu forskoti það sem eftir lifði leiks og sigruðu að lokum með 22 stigum, 82-104.

Aaron Parks var stigahæstur leikmanna Skallagríms með 20 stig og tók fimm fráköst að auki. Kristófer Gíslason skoraði 18 stig og tók sex fráköst, Eyjólfur Ásberg Halldórsson var með 17 stig, tíu fráköst og fimm stoðsendingar og Davíð Guðmundsson var með tólf stig og sex fráköst.

Skallagrímur situr í toppsæti deildarinnar með 18 stig eftir ellefu leiki, tveimur stigum á undan Snæfelli í sætinu fyrir neðan. Næst leikur Skallagrímur föstudaginn 15. desember næstkomandi þegar liðið mætir ÍA í Vesturlandsslag í Borgarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir