Frá keppni á héraðsmóti í Tjarnarlundi á síðari hluta síðustu aldar. Hér keppir Þórólfur Sigurðsson í langstökki. Ljósm. úr fórum Stefáns Skafta Steinólfssonar.

Ungmennafélagið Stjarnan stendur á tíræðu

Ungmennafélagið Stjarnan var stofnað í Saurbæjarhreppi í Dölum laugardaginn 1. desember árið 1917. Félagið á því aldarafmæli næsta föstudag. Í tilefni þess ætla félagsmenn að halda upp á afmælið í Tjarnarlundi laugardaginn 2. desember næstkomandi kl. 20:00. Arnar Eysteinsson í Stórholti er formaður Umf. Stjörnunnar. „Ungmennafélagið býður öllum til kaffisamsætis í Tjarnarlundi í tilefni dagsins. Kökur og kaffi verða á boðstólnum og smá skemmtidagskrá þar sem Fagradalsfrændur ætla til að mynda að stíga á svið og sprella fyrir gesti,“ segir Arnar í samtali við Skessuhorn. „Fyrst og fremst ætlum við þó að njóta þess að hittast, spjalla saman og eiga góða kvöldstund. Ef til vill verða rifjuð upp skemmtileg atvik frá samkomum Stjörnunnar í gegnum tíðina, héraðsmótum og jafnvel þorrablótum,“ bætir hann við.

 

Starfið hefur breyst í tímans rás

Ýmislegt hefur breyst í starfi Stjörnunnar eins og annarra ungmennafélaga í gegnum tíðina. Árlega er staðið fyrir þorrablóti í Tjarnarlundi og stundum réttardansleikjum. Það sem breyst hefur einna helst síðustu ár er íþróttastarfið. „Stjarnan ein og sér stendur í sjálfu sér ekki fyrir mörgum viðburðum núorðið. Haldið er árlegt þorrablót en íþróttastarfið er í samstarfi við önnur ungmennafélög á svæðinu, sem hefur gefið mjög góða raun. Ekki er lengur grundvöllur til að halda helgarlöng héraðsmót í Tjarnarlundi á hverju sumri, en í staðinn hefur UDN farið þá leið að halda þrjú kvöldmót á sumrin. Það hefur því mikið breyst frá því sem var hér áður fyrr,“ segir Arnar.

 

Halda utan um söguna

Um þessar mundir standa Umf. Stjarnan, Byggðasafn Dalamanna og Héraðsskjalasafn Dalasýslu fyrir sameiginlegu átaki við söfnun skjala, muna, ljósmynda og frásagna um starf Stjörnunnar undanfarin eitt hundrað ár. Þeir sem kunna að hafa undir höndum skjöl eða muni tengda starfi félagsins eru hvattir til að hafa samband við Arnar eða Valdísi Einarsdóttur héraðsskjalavörð. Arnar vonast til að takist að safna einhverjum munum fyrir afmælisveisluna 2. desember næstkomandi. „Það væri voða gaman að geta leyft fólki að fletta í gegnum gamlar ljósmyndir í afmælinu en það verður bara að koma í ljós hvort það verður hægt,“ segir hann. „Við í Stjörnunni vonumst auðvitað til að sem flestir láti sjá sig í Tjarnarlundi á laugardaginn til að fagna tímamótunum með okkur,“ segir Arnar Eysteinsson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Bæta kynheilbrigðisþjónustu

Bæta á aðgengi kvenna, einkum ungra kvenna, að kynheilbrigðisþjónustu og nýta betur fagþekkingu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra samkvæmt frumvarpi til breytinga... Lesa meira