Sótt um leyfi til opnunar apóteks á Akranesi

Á fundi bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar síðastliðinn þriðjudag var tekið fyrir erindi Lyfjastofnunar þar sem farið var fram á umsögn vegna útgáfu lyfsöluleyfis til Lyfja og heilsu vegna opnunar nýrrar lyfjaverslunar í verslana- og þjónustukjarnanum að Dalbraut 1. Lyf og heilsa er í eigu Karl Wernessonar og fjölskyldu hans og reka bæði Lyf og heilsu og Apótekarann. Fjölskyldan hefur opnað fimm ný apótek að undanförnu; á höfuðborgarsvæðinu og eitt í Keflavík. Miðað við opnunartíma sem sótt er um er líklegt að nýtt apótek á Akranesi verði í nafni Apótekarans.

Bæjarstjórn Akraness tók jákvætt í erindi Lyfjastofnunar og átta bæjarfulltrúar létu bóka að fagnað væri frekari atvinnuuppbyggingu á Akranesi. Við afgreiðslu málsins vék Ólafur Adolfsson af fundi, en hann er eins og kunnugt er eigandi Apóteks Vesturlands.

Líkar þetta

Fleiri fréttir