Keppt í tölti á Íslandsmóti í Borgarnesi. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Samþykkt að sameina hestamannafélögin Skugga og Faxa

Á aðalfundum í hestamannafélögunum Skugga í Borgarnesi og Faxa í Borgarfirði, sem haldnir voru samtímis í gærkvöldi, var samþykkt með yfirgnæfandi fjölda atkvæða að stofna nýtt hestamannafélag og leggja gömlu félögin niður. Hjá Faxa fór atkvæðagreiðsla um sameininguna þannig að 28 greiddu atkvæði með tillögu sameiningarnefndar og fimm voru á móti. Hjá Skugga fór atkvæðagreiðsla með þeim hætti að 52 voru fylgjandi sameiningu, tíu voru á móti og tveir tóku ekki afstöðu. Framhald málsins verður þannig að bæði félög skipa tvo fulltrúa í nefnd til að vinna að stofnun nýs hestamannafélags og Ungmennasamband Borgarfjarðar tilnefnir oddamann. Gert er ráð fyrir að stofnfundur nýs félags geti farið fram í byrjun næsta árs.

Undanfarin misseri hefur verið unnið að undirbúningi málsins og skipuðu bæði félögin fimm fulltrúa í nefnd sem hafði það hlutverk að vinna tillögu um hugsanlega sameiningu. Nefndin tók til starfa eftir aðalfundi félaganna beggja. Það var tillaga nefndarinnar að kosið yrði samtímis í báðum félögum um sameiningu. Hestamannafélögin Faxi og Skuggi eru svipuð að stærð, en um 280 félagar eru skráðir í Skugga og 270 í Faxa.

„Sameiningarnefndir félaganna telja að töluverður vilji sé til staðar meðal félagsmanna að sameina félögin á grundvelli þess að þar með verði öflugra félag starfandi í Borgarfirðinum og komið sé þannig til móts við kröfur um meiri samstöðu og samtakamátt hestamanna á svæðinu. Stærra félag verði öflugra í innra starfi og útávið á landsvísu. Vísa nefndirnar til greinagerðar sem unnin hefur verið upp um sameiningu félaganna, kosti þess og galla,“ segir í tillögu sameiningarnefndar.

Lagði sameiningarnefndin jafnframt til að sameinað félag fái nýtt nafn sem valið verði af félagsmönnum hins nýja félags. Ekki verði notast við nöfnin Faxi eða Skuggi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir