Ragnar Frank Kristjánsson tekur við starfi sviðsstjóra en víkur sæti úr sveitarstjórn á sama tíma.

Samþykkt að ganga til viðræðna við Ragnar Frank um starf sviðsstjóra

Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í gær var samþykkt að ganga til viðræðna við Ragnar Frank Kristjánsson um að taka við stöðu sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs sveitarfélagsins. Átta sóttu um starfið og var ráðgjafi frá Intellecta sem stýrði viðtölum við þá tvo sem metnir voru hæfastir. Byggðarráð var samdóma í niðurstöðu sinni. Ragnar hefur um árabil starfað sem lektor við Umhverfis- og auðlindadeild LbhÍ á Hvanneyri. Hann er jafnframt fulltrúi VG í sveitarstjórn Borgarbyggðar og mun nú víkja sæti í sveitarstjórn og varamaður taka sæti hans þar. Fyrsti varamaður er Sigríður Júlía Brynleifsdóttir en annar varamaður er Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir. Halldóra Lóa sagði í samtali við Skessuhorn að ekki liggi fyrir á þessari stundu hvor þeirra taki sæti í sveitarstjórn eða hvort þær skipti með sér verkum.

Fleiri breytinga er að vænta á umhverfis- og skipulagssviði. Stutt er í að ráðið verði í starf byggingafulltrúa, en umsóknarfrestur um það starf rann út fyrr í vikunni. Þá hefur verið ráðinn starfsmaður í tímabundið starf til nokkurra mánaða og verður verkefni hans að yfirfara og leiðrétta skráningar fasteigna í sveitarfélaginu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir