Ingibjörg les hér fyrir börn af Hnoðrabóli.

Lesið fyrir yngstu kynslóðina

Mánudaginn 13. nóvember hófst Norræna bókasafnavikan, sem Samband norrænu félaganna stendur fyrir um öll Norðurlönd og nágrenni. Í Snorrastofu í Reykholti komu góðir gestir frá Kleppjárnsreykjum og Hnoðrabóli, sem hreiðruðu um sig í ljósaskiptunum og hlýddu á sögu Mauri Kunnas, Fjársjóðseyjuna, sem Ingibjörg Daníelsdóttir á Fróðastöðum las. Að lestri loknum áttu börnin næðisstund á safninu, nutu hressingar frá Hönnubúð, skoðuðu bækur, teiknuðu og meltu söguna.

Óhætt er að hrósa þessum kærkomnu gestum fyrir hve vel þau þáðu stundina, komu prúðmannlega fram og hlustuðu af athygli. Nú hefur svona morgunstund í bókasafnavikunni verið haldin um nokkurra ára skeið víða á bókasöfnum Norðurlanda og hefur sannað gildi sitt fyrir alla sem að henni koma. Snorrastofa stendur í þakkarskuld við nágranna sína, Grunnskóla Borgarfjarðar og Hnoðraból sem þegið hafa boð um að flytja nemendur sína til móts við sögustundina í Reykholt og fylgja þeim. Þá er einnig að þakka þeim fjölmörgu sem hafa í gegnum árin ljáð krafta sína og rödd til þessara notalegu samverustunda.

-Jónína Eiríksdóttir

Líkar þetta

Fleiri fréttir