Páll S. Brynjarsson framkvæmdastjóri SSV ásamt systkinunum Önnu Ólöfu og Ómari Arndal Kristjánsbörnum sem stofnuðu Asco Harvester ásamt bróður sínum Ingvari Arndal. Ingvar var erlendis og gat því ekki verið viðstaddur afhendingu Frumkvöðlaverðlauna SSV 2017. Ljósm. kgk.

Asco Arvester hlaut Frumkvöðlaverðlaun SSV 2017

Frumkvöðladagur Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi var haldinn við hátíðlega athöfn í húsnæði Háskólans á Bifröst síðastliðinn miðvikudag. Liður í dagskrá frumkvöðladagsins var afhending Frumkvöðlaverðlauna SSV fyrir árið 2017. Komu þau í hlut nýsköpunarfyrirtækisins Asco Harvester ehf. í Borgarnesi. Fyrirtækið var stofnað af systkinunum Ómari Arndal, Ingvari Arndal og Önnu Ólöfu Kristjánsbörnum. Fyrirtækið Asco Harvester framleiðir sjávarsláttuvélar sem slá sjávargróður við strandlengjuna ásamt því að geta hreinsað rusl og annan úrgang sem hleðst upp á viðkvæmum stöðum. Fyrsti sláttupramminn frá Asco Harvester var sjósettur í Stykkishólmi við hátíðlega athöfn á liðnu sumri. Er hann afrakstur þróunarstarfs síðustu ára.

„Þeir sem koma að fyrirtækinu á einn eða annan hátt eiga tengingu í Breiðafjörðinn og hafa þekkingu og reynslu á þangöflun, þangvinnslu, skipasmíði og sjómennsku. Þau systkinin Ingvar, Ómar og Anna Ólöf Kristjánsbörn hafa verið í fararbroddi í uppbyggingu fyrirtækisins og eru starfsmenn þess í dag. Daglegur rekstur félagsins felst að mestu leyti í framleiðslu, markaðsstarfi, almennum rekstri, sölu á aukabúnaði og sekkjum ásamt sölu eða leigu á sjávarsláttuvél. Verkefnið hefur vakið mikla athygli og fengið styrki úr Tækniþróunarsjóði, Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka, Atvinnumálum kvenna og Uppbyggingarsjóði Vesturlands,“ sagði Páll S. Brynjarsson, framkvæmdastjóri SSV, þegar hann greindi frá verðlaunahöfunum.

Það voru Anna Ólöf og Ómar sem veittu verðlaununum viðtöku fyrir hönd Asco Harvester, en Ingvar bróðir þeirra var erlendis og gat því ekki verið viðstaddur. Fengu þau afhent blóm og verðlaunagrip sem smíðaður var af Dýrfinnu Torfadóttur, gullsmið og skartgripahönnuði á Akranesi. Við tilefnið mælti Anna Ólöf örfá orð fyrir hönd þeirra systkina. Þar þakkaði hún veittan stuðning og þann heiður sem þeim væri sýndur með útnefningunni. Þá þakkaði hún SSV sérstaklega fyrir ráðgjöf og stuðning við verkefnið, en fyrirtækið hefur áður hlotið stuðning úr Uppbyggingarsjóði. Sagði hún þau systkinin hafa búið vel að því að geta sótt reynslu og þekkingu til ráðgjafa SSV við hönnun og þróun á sínu fyrirtæki. Það hafi reynst þeim afar dýrmætt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir