Höfrungur III AK. Ljósm. HB Grandi.

Nóg af þorski og gullkarfa

„Það er búið að vera erfitt hjá okkur þennan túr. Þær tegundir, sem við höfum aðallega verið að eltast við, hafa annað hvort vart látið sjá sig eða veiðin hefur verið fremur treg. Við eigum að vera í landi á mánudag og þetta verður því stutt veiðiferð hjá okkur, 23 dagar,“ segir Haraldur Árnason, skipstjóri á frystitogaranum Höfrungi III AK, í frétt á vef HB Granda á sunnudag. Höfrungur III hóf veiðiferðina með því að fara á grálúðumiðin út af Austfjörðum. Hann segir aflann ekki hafa verið í samræmi við væntingar. „Þarna hafði nokkur fjöldi netabáta verið á grálúðuveiðum og það er eins og að þetta tvennt, tog- og netaveiðar, fari ekki saman. Aflinn út af Héraðsflóadjúpinu og í Seyðisfjarðardjúpi var a.m.k. ekki mikill,“ segir Haraldur.

Hann upplýsir að stefnan hafi í framhaldinu verið sett beint á Vestfjarðamið. „Það var ekki til neins að reyna grálúðuveiðar út af Víkurálnum því hinir stóru og öflugu togarar, sem draga tvö troll í einu, höfðu ekki erindi sem erfiði. Það er eins og að grálúðan hafi látið sig hverfa og hið sama má segja um ufsann sem við höfum varla orðið varir við í þessari veiðiferð,“ segir skipstjórinn. Ýsuveiðarnar segir hann sömuleiðis ekki hafa gengið vel. „Það var mjög góð ýsuveiði á Látragrunni fyrir um hálfum mánuði síðan en síðan ekki söguna meir. Við náðum í skottið á ágætri djúpkarfaveiði á Hampiðjutorginu en svo þurrkaðist hún upp. Hins vegar er mikið magn af gullkarfa á ferðinni austur allan kantinn á Vestfjarðamiðum og það hefur sömuleiðis verið mjög góð þorskveiði hjá norðlensku togurunum í Reykjafjarðarálnum og á Sporðagrunni,“ segir Haraldur Árnason.

Líkar þetta

Fleiri fréttir