Úr vinnslu Akraborgar. Ljósm. úr safni.

Rússar auka eftirlit með vörum Akraborgar

Matvælastofnun Rússlands hefur aukið eftirlit með innflutningi á vörum frá niðursuðuverksmiðjunni Akraborg á Akranesi. Ástæðan er sú að þungmálmurinn kadmíum fannst yfir leyfilegum mörkum í niðursoðinni þorsklifur sem fyrirtækið seldi til Rússlands. Fréttablaðið greinir frá. Eftirlitið var aukið 18. júlí síðastliðinn og að því er fram kemur á vef rússnesku matvælastofnunarinnar voru þrjú sýni tekin. Akraborg er enn heimilt að flytja vörur sínar til Rússlands með því skilyrði að sýni séu tekin úr öllum sendingum. Í Fréttablaðinu er haft eftir Rolf Hákoni Arnarsyni, framkvæmdastjóra Akraborgar, að fyrirtækið sé að bíða eftir frekari upplýsingum. Akraborg er í eigu Lýsis og er stærsti framleiðandi á niðursoðinni þorsklifur í heiminum. Um tíu prósent af framleiðslunni, tíu milljónir dósa af lifur á ári, er flutt til Tollabandalags Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan. Rússneska matvælastofnunin sér um eftirlit fyrir ríkin þrjú.

Fram kemur í frétt Fréttablaðsins að málið sé til skoðunar hjá Matvælastofnun. Niðurstöður rannsókna frá Rússlandi verði greindar og miðaðar við þau mörk sem unnið er eftir hér. Síðan verði brugðist við eftir því hvað kemur út úr þeirri skoðun MAST.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Strompurinn fallinn

Sementsstrompurinn á Akranesi var sprengdur kl. 14:16 í dag. Sprakk sprengihleðsla í um 25 metra hæð og eftir það féll... Lesa meira