Sigrún Ámundadóttir átti stórleik í sigrinum á Val í gær og skilaði myndarlegri þrennu. Ljósm. Kvennakarfa Skallagríms á facebook.

Skallagrímur vann góðan heimasigur á Grindavík

Skallagrímur tók á móti Grindavík í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikurinn var jafn og spennandi, Skallagrímskonur höfðu þó yfirhöndina allan tímann en náðu aldrei að hrista Grindvíkinga af sér. En að lokum fór svo að Borgnesingar unnu góðan sigur með 80 stigum gegn 72.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínútur leiksins og eftir fyrsta leikhluta leiddu Skallagrímskonur með einu stigi. Þær náðu svo heldur yfirhöndinni í öðrum fjórðungi en gestirnir voru aldrei langt undan. Borgarnesliðið hafði þriggja til sex stiga forskot allt fram að leikhléi þegar staðan var 41-37 og útlit fyrir jafnan og spennandi síðari hálfleik.

Skallagrímskonur áttu góðan kafla snemma í þriðja leikhluta og náðu mest ellefu stiga forskoti. Sem fyrr komu Grindvíkingar þó til baka og minnkuðu muninn niður í fjögur stig fyrir lokafjórðunginn. En þær náðu aldrei að gera atlögu að forystunni. Skallagrímskonur héldu þeim alltaf í skefjum og unnu að lokum góðan sigur, 80-72.

Tavelyn Tillman var frábær í liðið Skallagríms í leiknum. Hún skoraði 36 stig, þar af 22 í fyrri hálfleik og dró vagninn fyrir Borgarnesliðið. Auk stiganna 36 tók hún átta fráköst og gaf sex stoðsendingar. Næst henni kom Sigrún Ámundadóttir með 16 stig, átta fráköst og sex stoðsendingar og Ragnheiður Benónísdóttir skoraði ellefu stig og tók tíu fráköst.

Skallagrímur hefur unnið tvo af fyrstu þremur leikjum vetrarins og hefur fjögur stig, rétt eins og öll lið í 1.-5. sæti.

Næsti leikur Skallagríms fer fram miðvikudaginn 19. október næstkomandi þegar liðið sækir Keflvíkinga heim.

Líkar þetta

Fleiri fréttir