Hælisleitendur vistaðir á Bifröst án samráðs við sveitarfélagið

Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í gær var lagður fram tölvupóstur innanríkisráðuneytisins dags. 30. september síðastliðinn varðandi vistun hælisleitenda á Bifröst. Í tölvupósti þessum kemur fram að í undirbúningi sé að auka við móttöku hælisleitenda á Bifröst í stað þess að leggja hana af í lok september eins og til stóð. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu mun á Bifröst verða komið fyrir barnlausu fólki og hraustu sem ekki mun þurfa á þjónustu sveitarfélagsins að halda. Byggðarráð gagnrýnir engu að síður harðlega samráðsleysi við sveitarfélagið, samanber meðfylgjandi bókun frá fundinum:

„Byggðarráð átelur að ekki skuli hafa verið haft formlegt samband við sveitarfélagið fyrr vegna vistunar hælisleitenda á Bifröst en þessu úrræði var komið á fót í byrjun júlí. Byggðarráð leggur áherslu á að gengið verði frá samningum um endurgreiðslu kostnaðar vegna þessa verkefnis ef um slíkt verður að ræða. Byggðarráð felur sveitarstjóra og félagsmálastjóra að vinna að og ganga frá slíkri samningsgerð við hlutaðeigandi stofnanir ríkisins.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir