Systkinin Daníel og Ásta Sigurðarbörn lönduðu Íslandsmeistaratitlinum með dramatískum hætti á loka sérleið sumarsins.

Heilladísirnar kvöddu Alla og Sigga fyrir síðustu sérleiðina

Síðasta umferð Íslandsmótsins í rallý var ekin laugardaginn 24. september. Bifreiðaríþróttaklúbbur Reykjavíkur stóð fyrir keppninni en ekið var um Kaldadal í Borgarfirði og Skjaldbreiðarveg, sem er línuvegur frá Kaldadal yfir að Gullfossi. Eru þetta langar og krefjandi leiðir sem reyna mikið á bíla og áhafnir. Einungis tíu áhafnir mættu til leiks en mikil spenna var engu að síður þar sem tvær áhafnir áttu möguleika á Íslandsmeistaratitlinum, þeir Sigurður Bragi Guðmundsson og Aðalsteinn Símonarson annarsvegar en Daníel og Ásta Sigurðarbörn hinsvegar. Var forysta þeirra fyrrnefndu það mikil á mótinu að þeim dugði að klára í einu af fimm efstu sætunum í keppninni til að tryggja sér titilinn. Daníel og Ásta urðu hinsvegar að verða í fyrsta eða öðru sæti til að eiga möguleika á titlinum.

Líkt og oft áður í sumar hófu Daníel og Ásta keppnina með miklum látum og óku mun hraðar en allir keppnautar þeirra. Sigurður Bragi og Aðalsteinn óku einnig greitt og voru í harðri baráttu um annað sætið þegar einungis ein sérleið var eftir. Á henni snéru heilladísirnar við þeim bakinu þegar drifbúnaður í bíl þeirra bilaði með þeim afleiðingum að þeir féllu úr keppni. Daníel og Ásta skiluðu sér í endamark sem sigurvegarar í keppninni og tryggðu sér með því Íslandsmeistaratitilinn 2016. Til marks um hve keppnin var erfið þá luku henni einungis fimm áhafnir þar sem ein velti bíl sínum og bilanir í stýrsbúnaði og fjöðrunarkerfi felldu aðra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir