Blóðskimun til bjargar

Næstu daga munu íbúar á Akranesi fá í pósti fjólublátt umslag sem inniheldur kynningu á þjóðarátaki í blóðskimun sem ber yfirskriftina „Blóðskimun til bjargar“. Um er að ræða stóra vísindarannsókn á vegum rannsóknarhóps undir forystu Sigurðar Yngva Kristinssonar, prófessors í blóðsjúkdómum. Markmið þess er að safna blóðsýnum 140 þúsund Íslendinga til að rannsaka hvort skimun fyrir forstigi mergæxlis geti komið í veg fyrir að þeir sem greinast með forstigið þróist yfir í krabbamein. Þjóðarátakinu verður hleypt af stokkunum á landsvísu í nóvember en ákveðið var að prufukeyra það fyrst á Akranesi.

Að sögn Sigurðar Yngva er um mikilvæga vísindarannsókn að ræða. „Rannsóknin er einstök á heimsvísu en við ætlum að bjóða öllum Íslendingum 40 ára og eldri að taka þátt í henni.“ Að rannsókninni standa meðal annars Háskóli Íslands, Krabbameinsfélag Íslands og Landspítali Háskólasjúkrahús, en verndari verkefnisins er frú Vigdís Finnbogadóttir.

 

Prufukeyrt á Akranesi

Til þess að prufukeyra verkefnið var ákveðið að hefja það í einu sveitarfélagi á landinu áður en verkefninu yrði hleypt af stokkunum á landsvísu og varð Akranes fyrir valinu.

„Við viljum vanda okkur mikið við framsetningu og framkvæmd þessa verkefnis og því ákváðum við að prufukeyra ferlið okkar í einu bæjarfélagi og varð Akranes fyrir valinu. Á næstu dögum munu því allir íbúar á Akranesi sem fæddir eru árið 1975 eða fyrr fá fjólublátt umslag í pósti sem inniheldur kynningarbækling, samþykkisyfirlýsingu og sérstakt lykilorð,“ segir Sigurður Yngvi og heldur áfram: „Til þess að taka þátt í verkefninu þarf fólk að veita upplýst samþykki. Það verður hægt að gera á vefsíðu þjóðarátaksins eða með því að senda undirritaða samþykkisyfirlýsingu gjaldfrjálst til okkar. Næst þegar viðkomandi fer, einhverra hluta vegna, í blóðprufu fáum við hluta af blóðsýninu til skimunar.“

Þar sem almenn kynning á verkefninu í fjölmiðlum mun ekki hefjast fyrr en þjóðarátakið mun hefjast í nóvember munu Sigurður Yngvi og hans fólk leggja sig fram við að kynna verkefnið á Akranesi. „Við viljum skapa umræðu um málefnið á Akranesi með því að halda fyrirlestra á stærri vinnustöðum því það er mikilvægt fyrir framgang verkefnisins á landsvísu að þessi forkönnun meðal Skagamanna gangi vel,“.

 

Góð þátttaka forsenda árangurs

„Forsenda þess að rannsóknin verði marktæk og verkefnið heppnist er að við fáum næga þátttöku,“ segir Sigurður Yngvi og bætir við: „Við vonumst því til að sem flestir kynni sér innihald fjólubláa umslagsins og skrái sig til þátttöku á heimasíðunni www.blóðskimun.is.“

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir