Þórður Guðsteinn Pétursson er ekki lengur í framboði fyrir Pírata, en flokksmenn höfnuðu lista þar sem hann var í efsta sæti í NV kjördæmi.

Píratar felldu listann og kjósa nú aftur

Endurtektarkosning fyrir röðun á framboðslista Pírata í Norðvesturkjördæmi hófst á miðnætti og stendur þar til á hádegi á miðvikudag. Ellefu frambjóðendur gefa áfram kost á sér en bæði Þórður Guðsteinn Pétursson, sem kosinn var efstur á lista í prófkjörinu, og Halldóra Sigrún Ásgeirsdóttir, kapteinn Pírata á Vestfjörðum, hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér í endurkosningunni.

Listi Pírata í NV-kjördæmi var sem kunnugt er kærður til úrskurðarnefndar flokksins, þar sem skera átti úr um hvort Þórður Guðsteinn hefði smalað fólki til að kjósa sig. Þórður viðurkenndi að hafa smalað 25-35 manns til að kjósa sig en niðurstaða úrskurðarnefndar var að hann hefði ekki brotið reglur Pírata því smölunin hafi átt sér stað áður en reglur flokksins um bann við smölun tóku gildi.

Framboðslistanum var hins vegar hafnað í staðfestingarkosningu Pírata á landsvísu með 153 af 272 greiddum atkvæðum. Því verður að kjósa á ný í prófkjöri og þar geta allir Píratar á landinu tekið þátt. Prófkjörið hófst sem fyrr segir á miðnætti og stendur til hádegis á miðvikudag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir