Hljómsveit skipuð ungmennum úr Dölum. Ljósm. úr safni.

Nemendurnir duglegir að koma fram á viðburðum

Í Auðarskóla í Dalabyggð er starfrækt tónlistardeild. Deildin hefur starfsemi samhliða skólanum og hefur aðsóknin verið góð undanfarin ár en um helmingur nemenda hafa stundað tónlistarnám. „Við eigum ekki von á öðru en að sambærilegt hlutfall nemenda skrái sig til náms í tónlistardeildinni í ár eins og undanfarin ár,“ segir Ólafur Rúnarsson, tónlistarkennari við tónlistardeild Auðarskóla, en ásamt Ólafi starfar Jan Michelski einnig sem tónlistarkennari við deildina. Ólafur segir það mikinn kost að leik-, grunn-, og tónlistarskólinn sé ein stofnun. „Þar sem skólinn er ein deild er að sjálfsögðu mikið samstarf milli deilda og námið aðgengilegra en ella. Við reynum einnig að halda sambandi við aðrar stofnanir í byggðarlaginu og t.d. reynt að fara í heimsóknir á dvalarheimilið og aðrar stofnanir,“ segir Ólafur.

 

Ætla að reyna að endurvekja kórinn

„Vinsælast er að læra á píanó í deildinni en söngurinn er einnig býsna vinsæll, það hafa einnig margir verið að læra á gítar og trommur. Okkur þykir svolítið leiðinlegt að harmonikkan hefur átt undir högg að sækja undanfarið og við myndum vilja bæta úr því,“ segir Ólafur.

Nýr skólastjórnandi hefur tekið við í Auðarskóla og segir Ólafur að það hafi einhver áhrif eins og alltaf þegar mannabreytingar verða. „Við höfum verið að skoða möguleika um hvort viljum breyta starfinu að einhverju leyti, það hafa komið upp hugmyndir og ein þeirra er að við viljum endurvekja kór skólans.“

Ólafur segir að það sé nóg framundan hjá deildinni. „Í vetur munum við halda tónfundi, jóla- og vortónleika og alls konar uppákomur. Nemendur okkar eru einnig duglegir að koma fram á viðburðum bæði stórum og smáum innan skólans. Við erum spennt fyrir komandi verkefnum og að fá nemendurna aftur í skólann,“ segir Ólafur að lokum.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir