Flugeldasýning á æfingu fyrir setningarathöfn Ólympíuleikanna í Ríó.

Ólympíuleikarnir hefjast í kvöld

Ólympíuleikarnir í Rio de Janeiro hefjast formlega í kvöld klukkan 23:00 með setningarathöfn leikanna og skrúðgöngu. Þar ganga íþróttamenn og fulltrúar frá hverju þátttökulandi með fána sinnar þjóðar inn á Maracana leikvanginn í Rio. Í samræmi við hefð Ólympíuleikanna munu Grikkir ganga fyrstir inn á völlinn en gestgjafarnir, Brasilíumenn síðastir. Aðrar þjóðir ganga inn á leikvanginn í stafrófsröð.

Leikarnir standa yfir þar til 21. ágúst næstkomandi og því er sannkölluð íþróttaveisla framundan fyrir íþróttaáhugafólk.

 

Átta íslenskir keppendur

Ísland á átta fulltrúa í keppnisgreinum Ólympíuleikanna að þessu sinni. Þeir eru: Irina Sazonova, áhaldafimleikar, Aníta Hinriksdóttir, 800m hlaup, Ásdís Hjálmsdóttir, spjótkast, Guðni Valur Guðnason, kringlukast, Þormóður Árni Jónsson, júdó +100kg flokkur, Anton Sveinn McKee, 100m og 200m bringusund, Eygló Ósk Gústafsdóttir, 100m og 200m baksund, og Hrafnhildur Lúthersdóttir, 100m og 200m bringusund.

Fánaberi Íslands á setningarathöfn Ólympíuleikanna í kvöld verður júdókappinn Þormóður Árni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir