Jónína Erna stefnir á 2. til 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokks

Jónína Erna Arnardóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað til þriðja sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar í haust.

Jónína Erna er búsett í Borgarnesi og starfar sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Borgarbyggðar. Undanfarin sex ár hefur hún setið í sveitarstjórn Borgarbyggðar og situr í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk þess að hafa gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. „Þessi reynsla ætti að nýtast mér vel við störf á Alþingi og þau málefni sem ég vil leggja áherslu á eins og t.d. vegamál, en vegir innan kjördæmisins eru víða í slæmu ástandi og þarf að gera mun betur þar. Einnig þarf að hraða ljósleiðaravæðingu kjördæmisins og reyndar landsins alls. Mikilvægt er líka að hlúa að grunnþjónustu eins og heilbrigðisþjónustu og menntakerfinu,“ segir Jónína Erna.

„Ég tel að þetta og ótal margt annað getum við gert án þess að skattar séu í hæstu hæðum ef atvinnulíf fær að blómstra og þar með hagur allra. Ég hlakka til að hitta sem flesta á næstu vikum til að kynna mig og heyra hvað er kjósendum í kjördæminu efst í huga,“ segir hún.

Líkar þetta

Fleiri fréttir