Frá Vesturlandsvegi. Ljósm. úr safni.

Vilja flýta breikkun Vesturlandsvegar

Hagvísir 2016, skýrsla sem Vífill Karlsson vann fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi um ástand vega í landshlutanum, var lögð fram á fundi bæjarráðs Akraneskaupstaðar fimmtudaginn 28. júlí síðastliðinn. Þar kemur meðal annars fram að fjárveiting til Vesturlandsvegar nemur um helmingi af þeim peningum sem varið hefur verið í Reykjanesbraut á tíu ára tímabili, frá 2005 til 2014.

„Bæjarráð Akraness skorar á samgönguyfirvöld að forgangsraða fjárveitingum í þágu umferðaröryggis og hefja nú þegar breikkun á Vesturlandsvegi,“ segir í bókun bæjarráðs. Í gildandi Samgönguáætlun er gert ráð fyrir að breikkun Vesturlandsvegar geti hafist á árunum 2019 til 2022.

Bæjarráð vísar er í tölur frá Vegagerðinni sem sýna 21% aukningu umferðar um Hvalfjarðargöng á fyrstu fimm mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Þá fóru um átta þúsund bílar í gegnum göngin á hverjum degi í júní síðastliðnum. Telur bæjarráð að sú mikla fjölgun ferðamanna sem sést hefur á Íslandi undanfarin ár geri vegabætur að einu brýnasta samfélagsverkefni samtímas. Því sé brýnt að flýta breikkun Vesturlandsvegar. „Að mati bæjarráðs á Akranesi er verkefnið svo brýnt að flýta verður framkvæmdum eins og kostur er. Það er með öllu óviðunandi að árið 2016 sé enn verið að keyra einbreiðan Vesturlandsveg og að sú verði raunin næsta áratug eða svo,“ segir í bókuninni.

Áskorun bæjarráðs hefur verið send innanríkisráðherra, Vegagerðinni og Samgöngustofu auk þingmanna Norðvesturkjördæmis, að því er kemur fram á vefsíðu sveitarfélagsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir