Hjúkrunarforstjóri Silfurtúns lætur af störfum

Gróa Dal hjúkrunarfræðingur lætur af störfum sem hjúkrunarforstjóri dvalar- og hjúkrunarheimilisins Silfurtúns í Búðardal um miðjan ágústmánuð. Gróa hefur gegnt starfinu undanfarin þrjú ár, eða frá því í júlí 2013.

Ástæðuna fyrir brotthvarfi sínu úr starfi hjúkrunarforstjóra segir Gróa að hana hafi langað að nýta hjúkrunarfræðinámið til að gera eitthvað skemmtilegra. „Það er mikil skrifstofuvinna að vera hjúkrunarforstjóri. Ég vil vinna meira með fólkinu,“ segir hún og upplýsir að hún ætli að hefja störf á gjörgæslugeðdeild Landspítalans í Reykjavík. „Þar er tekið á móti allra veikasta fólkinu í geðrofsástandi, maníu eða sjálfsvígshættu. Því er síðan beint inn á aðrar deildir að bráðameðferð lokinni,“ segir Gróa. „Ég var á þessari deild í náminu mínu og það er rosalega gefandi og skemmtileg vinna, að hjálpa fárveiku fólki að rísa upp úr veikindum sínum,“ bætir hún við. Áhugi hennar liggur inn á sviði geðhjúkrunarfræðinnar. „Ég hef unnið lengi á Fellsenda og var með bakvaktarsamstarf þar allan tímann sem ég var á Silfurtúni. Ég hef áhuga á þessu og enda einhvern veginn alltaf með bækur um geðið á náttborðinu,“ segir Gróa og hlær við.

Þrátt fyrir að hún hyggist hefja störf í Reykjavík kveðst hún ætla að búa áfram í Búðardal ásamt eiginmanni sínum Birni Antoni Einarssyni. „Við ætlum að vera hérna áfram. Það er engin ástæða að fara frá stað þar sem manni líður vel,“ segir Gróa að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira