Skagakonur máttu sætta sig við tap gegn FH í gær. Ljósm. úr safni.

Skagakonur töpuðu í fallbaráttuslag

Skagakonur mættu FH í tíundu umferð Pepsi deildar kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi. Leikið var í Kaplakrika í Hafnarfirði. Um fallbaráttuslag var að ræða, en ÍA var fyrir leikinn á botni deildarinnar með fjögur stig. Gestgjafarnir úr hafnarfirði voru í 8. sæti með sjö stig. Sigur ÍA hefði því getað lift liðinu upp fyrir KR í næstneðsta sætinu og hleypt verulegu lífi í botnbaráttuna. En sú varð ekki raunin því FH-ingar höfðu að lokum sigur með tveimur mörkum gegn einu.

Hafnarfjarðarliðið byrjaði leikinn af krafti og komst yfir strax á 6. mínútu. Aldís Kara Lúðvíksdóttir fékk boltann utan teigs, lagði hann til hliðar á Bryndísi Hrönn Kristinsdóttur sem átti gott skot í fjærhornið niðri. FH hélt áfram að sækja eftir markið en Skagakonur lágu til baka og beittu skyndisóknum. Þegar líða tók á fyrri hálfleik varð leikurinn jafnari og liðin háðu sína baráttu á miðsvæði vallarins. Fleiri mörk voru ekki skoruð á fyrstu 45 mínútum leiksins og heimakonur leiddu því 1-0 í hálfleik.

Baráttan hélt áfram í upphafi síðari hálfleiks. Skagakonur voru ívið sterkari og sóttu en FH-ingum gekk erfiðlega að skapa sér færi. Það var síðan á 59. mínútu leiksins að Skagakonur jöfnuðu metin. Maren Leósdóttir lagði boltann til hliðar á Catherine Dyngvold, sem var ein á auðum sjó við vítateigslínuna. Hún gerði engin mistök og lagði boltann framhjá markverði FH og í netið.

Aðeins fjórum mínútum síðar komst FH yfir á nýjan leik. Markið kom sem þruma úr heiðskýru lofti. Alex Nicole Alugas var stödd á hægri kanti þegar hún fékk langa sendingu. Hún tók vel á móti boltanum og lét vaða í nærhornið og FH skyndilega komið í 2-1. Skagakonur voru þó hvergi af baki dottnar en höfðu ekki erindi sem erfiði. Þær máttu sætta sig við tap og eru því enn á botni deildarinnar með fjögur stig, tveimur stigum á eftir KR í sætinu fyrir ofan og fimm stigum á eftir Selfyssingum í 8. sæti.

Næsti leikur liðsins fer fram sunnudaginn 7. ágúst næstkomandi þegar Þór/KA kemur í heimsókn á Akranesvöll.

Líkar þetta

Fleiri fréttir