
Hyrnudrengirnir mörgum í fersku minni
Ferðaþjónusta hér á landi vex nú hraðar en nokkur atvinnugrein fyrr og síðar. Fjölgun ferðamanna mælist í tugum prósenta á ári. Því fer fjarri að innviðirnir séu í stakk búnir til að taka á móti þessum fjölda og ýmsa agnúa má finna sem kenna má við vaxtarverki. Þá þarf fjölgun starfsfólks að fylgja með í nokkurn veginn réttu hlutfalli og þjónustugleðin að vera til staðar. Farnar eru að heyrast sögusagnir um að þjónustu sé ábótavant á ákveðnum stöðum, það vanti fólk til starfa og það skorti þekkingu. Vafalítið á þetta við rök að styðjast. En í stað þess að velta sér upp úr því sem aflaga er að fara, úr því verður vonandi bætt, kaus blaðamaður að ræða við þrjá karla sem stóðu saman vaktina um árabil í Hyrnunni í Borgarnesi. Þeir öfluðu sér vinsælda meðal landsmanna fyrir óvenjulega mikla þjónustulund. Segja má að Hyrnan hafi allt frá opnun miðstöðvarinnar 21. júní árið 1991 slegið í gegn og þar áttu viðkomu flestir sem leið áttu norður í land eða vestur á Snæfellsnes. En Hyrnan þjónaði ekki síst þörfum byggðarlagsins og bænda í héraðinu.