Svipmynd frá Sandara- og Rifsaragleðinni fyrir tveimur árum.

Sandara- og Rifsaragleði framundan

Sandara- og Rifsaragleði verður haldin um helgina í Snæfellsbæ. Samkvæmt fjórðu drögum að dagskrá, á vef Snæfellsbæjar, byrjar gleðin fimmtudaginn 7. júlí en þá hefst Meistaramót golfklúbbsins Jökuls og verður spilað fimmtudag til laugardags. Vestfjarðarvíkingurinn verður í Tröð og Ari Eldjárn verður með uppistand um kvöldið í Frystiklefanum. Á föstudeginum verður meðal annars minningabekkur um Skúla Alexandersson vígður, farið verður í kvöldrölt og hljómsveitin „Í svörtum fötum“ spilar fyrir dansi í Röst.

Gleðin heldur áfram á laugardeginum þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Það verður meðal annars farið í göngutúr með Sæmundi um Hellissand, grillpartý verður við Hótel Hellissand, barnaskemmtun Frystiklefans og froðubolti fyrir 5-12 ára börn. Þá verða hoppukastalar, markaður og fleira skemmtilegt í félagsheimilinu Röst. Götugrill verður í öllum götum og þar sem allir eru velkomnir. Þegar allir hafa belgt sig út af grillmat mun heimahljómsveitin Ungmennafélagið leika fyrir dansi í Röst. Gleðilok verða með tónleikum Svavars Knúts og Kristjönu Stefánsdóttur í Frystiklefanum klukkan 20:00 á sunnudeginum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir