Ösp spilaði á Ullarsokknum á Írskum dögum.

Hljómsveitin Ösp gefur út sitt fyrsta lag

Hljómsveitin Ösp, sem skipuð er þeim Kristni Braga Garðarssyni og Eiði Andra Guðlaugssyni, sendi frá sér sitt fyrsta frumsamnda lag á dögunum ásamt myndbandi. Báðir hafa þeir stundað nám við Tónlistarskóla Akraness. „Þetta er fyrsta lagið sem við tökum upp í stúdíói og gefum út, lagið heitir Simple Role og er frekar sorglega saga af manni sem leiðist út á ranga braut í lífinu. Við höfum verið starfandi í eitt ár og eigum fleiri lög sem við höfum samið og vonandi náum við að gefa út plötu eða eitthvað slíkt þegar við teljum okkur vera komna með nóg af efni,“ segir Kristinn Bragi.

Kristinn segir að tónlistin sem þeir semji sé fjölbreytt og ekki sé hægt að setja hana í ákveðin flokk. „Ég spila á gítar og syng og Eiður spilar á saxófón ásamt öðrum hljóðfærum. Við höfum ekki lagt áherslu á eina stefnu frekar en aðra. Eina sem ég legg upp með er að reyni að segja sögur með lögunum mínum.“

Hljómsveitin gaf lagið út um miðja síðustu viku og í kjölfarið þurftu þeir að skipta um nafn. „Við hétum Eik þegar lagið kom út en við fengum ábendingu um að önnur hljómsveit sem var starfandi rétt fyrir síðustu aldamóta bar einnig það nafn. Til þess að koma í veg fyrir rugling og til þess að sýna þeirri hljómsveit virðingu ákváðum við að breyta nafninu. Ég einfaldlega fann bara nýja trjátegund og skýrði hljómsveitina eftir henni. Ösp varð fyrir valinu,“ segir Kristinn Bragi.

Hljómsveitin kom fram á Ullarsokknum, tónleikum þar sem ungt tónlistarfólk á Akranesi spilaði, á Írskum dögum. „Það hefur verið mikið að gera bæði í vinnu og skóla síðastliðið ár svo við höfum ekki náð að spila eins mikið og við vildum. Við ætlum að vera eins duglegir og við getum að spila í sumar. Við erum tilbúnir að spila við öll tilefni, við spilum bæði okkar lög og einnig lög eftir aðra,“ segir Kristinn að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira