Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri er komin í gírinn.

„Mikilvægast að það ríki jákvæðni og gleði“

Bæjarhátíðin Írskir dagar á Akranesi hefur ávallt verið vinsæl, bæði meðal heimamanna sem og gesta. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri á Akranesi segir íbúa taka góðan og virkan þátt en í ár verða Írskir dagar haldnir í sautjánda skipti. „Við fögnum írskum uppruna okkar með írsku fánalitunum, veljum rauðhærðasta Íslendinginn og best skreytta, eða írskasta húsið. Tónninn er sleginn á fimmtudagskvöldinu með tónleikum á Akratorgi fyrir yngstu kynslóðina, Litlu lopapeysunni,“ segir Regína. Dagskrá Írskra daga heldur svo áfram með hefðbundnu sniði og má þar finna fjölskyldutónleika á föstudagskvöldinu, götugrill, brekkusöng, listsýningu í Vitanum og margt fleira. „Þeim fjölgar jafnt og þétt sem taka þátt í götugrillunum á föstudeginum og þeim fer einnig fjölgandi sem sækja viðburði eins og brekkusönginn á laugardeginum. Þetta fer auðvitað svolítið eftir veðrinu, ef veðrið er gott þá fáum við fleiri gesti. En óháð því er líka góð þátttaka,“ segir Regína. ,,Hátíðinni lýkur svo á sunnudagskvöldinu í Garðalundi en þar ætlum við að bjóða bæjarbúum og öðrum gestum á leik Íslands og Frakklands sem hefst klukkan sjö og vonumst við eftir því að sjá sem flesta“.

 

Endurfundir íbúa

„Bæjarhátíðum hefur farið fjölgandi á Íslandi undanfarin ár og má segja að nánast hvert einasta sveitarfélag haldi hátíð að sumri til þó hátíðirnar séu ólíkar. Þær eiga það hinsvegar sameiginlegt að hafa það að markmiði að íbúar á öllum aldri koma saman og skemmta sér,“ útskýrir Regína. Hún segir Írska daga snúast að miklu leyti um samheldni. „Fólk tekur sig saman og gleðst saman. Margir brottfluttir Skagamenn koma heim og svo er þetta orðinn fastur liður í dagskrá fyrir krakka sem eru að alast upp. Það eru margir samverkandi þættir sem hafa jákvæð áhrif.“ Regína segir gaman að fá sem flesta gesti í bæinn á Írskum dögum og að bæjarbúar taki þátt og bjóði til sín vinum og ættingjum. „En svona bæjarhátíðir eru oft hálfgerðir endurfundir núverandi íbúa og brottfluttra. Mikilvægast er að allir finni eitthvað við sitt hæfi og leyfi jákvæðninni og gleðinni að ríkja þessa daga.“

 

Að ýmsu að huga

Akraneskaupstaður er aðal framkvæmdaaðili Írsku daganna sem heyra undir menningar- og safnamál hjá bænum. Ýmsu þarf að huga að við skipulagningu bæjarhátíðar af þessari stærðargráðu. „Það þarf að fá skemmtikrafta og útbúa dagskrá, koma upp sviði í miðbænum, huga að skreytingum og kynningarefni og gæslu á tjaldsvæði svo eitthvað sé nefnt.“ Allt eru þetta þættir sem bærinn kemur að og þarf að skipuleggja. Þá þarf að vera í góðu samstarfi við lögreglu, huga að lokunum á götum og gefa út leyfi fyrir sérstökum viðburðum, eins og til dæmis Lopapeysunni. „Við erum með fjárveitingu til að ráða sérstakan verkefnastjóra Írskra daga og var Hallgrímur Ólafsson leikari ráðinn í ár, eins og í fyrra. Hann er að störfum í nokkrar vikur fyrir hátíðina en það er byrjað að leggja grunninn miklu fyrr.“ Regína segir Akraneskaupstað langstærsta styrktaraðila hátíðarinnar.  ,,Sem betur fer þá eru líka nokkur fyrirtæki sem munu styrkja einstaka viðburði í ár og það munar heilmikið um það. Við höfum verið markvisst að vinna að því að fjölga styrktaraðilum og munum halda áfram á þeirri braut,“ segir Regína. „Það er að mörgu að huga við undirbúning svona hátíðar og vil ég nota tækifærið og þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóg. Fyrirtækjum sem styrkja hátíðina, menningar- og safnanefnd og þeim starfsmönnum sem hafa haft veg og vanda af daglegum undirbúningi. Skemmtum okkur saman um helgina með jákvæðni og bjartsýni að leiðarljósi,“ segir Regína að endingu.

 

Sjá má dagskrá Írskra daga í heild og sitthvað fleira um hátíðina í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Heba Bjarg er dúx FVA

Föstudaginn 28. maí voru 55 nemendur brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands. Heba Bjarg Einarsdóttir var með bestan námsárangur á stúdentsprófi með... Lesa meira

Slaka á samkomutakmörkunum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt um slakanir á samkomutakmörkunum frá og með þriðjudeginum 15. júní. Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 150... Lesa meira