Skagamenn unnu KR á lokasekúndu leiksins

Fyrr í kvöld mættust lið ÍA og KR á KR-velli. Bæði lið hafa farið illa af stað í deildinni og leikurinn því mikilvægur fyrir bæði lið. Fyrir leikinn var KR í áttunda sæti með níu stig en Skagamenn voru í næst neðsta með fjögur stig. Skagamenn unnu leikinn á dramatískan hátt á lokasekúndunni með rosalegu marki Garðars Gunnlaugssonar og komu sér upp um eitt sæti en Þróttur sem nú eru í næst neðsta sæti eiga leik til góða.

Það voru Skagamenn sem voru frískari aðilinn í upphafi leiks. Skagamenn fengu aukaspyrnu á góðum stað á 13. mínútu; Garðar Gunnlaugsson tók spyrnuna en skot hans fór yfir markið.

Besta færi fyrri hálfleiks átti Óskar Örn Hauksson á 21. mínútu leiksins. Þessi fimi og snöggi leikmaður fékk boltann við miðlínuna; þar hafði hann nægt svæði til að athafna sig og kom sér í gott skotfæri við vítateiginn, skot hans var virkilega gott en fór framhjá markinu.

Leiðinlegt atvik átti sér stað á 26. mínútu þegar Hallur Flosason var kominn á fleygiferð með boltann og stefndi í átt að markteig KR. Hann stakk boltanum framhjá Præst í vörninni. Þegar Hallur reyndi að komast framhjá Præst skullu þeir harkalega saman svo að báðir lágu eftir. Hallur stóð fljótlega á fætur en Præst var borinn útaf og spilaði ekki meira í leiknum.

Lítið var um færi það sem eftir lifði hálfleiks. Þegar Guðmundur Ársæll, dómari leiksins, flautaði til leikhlés var staðan 0 – 0.

Það virtist vera sem allt annað KR-lið hafi mætt til leiks í síðari hálfleik. Þeir mættu dýrvitlausir til leiks. Óskar Örn fékk fínt skotfæri strax á 46. mínútu sem endaði í varnarmanni en boltinn barst aftur á Óskar sem átti fínt skot sem Árni varði í horn.

Fyrsta mark leiksins kom á 53. mínútu. Daninn Kennie Chopart fékk boltann við miðlínuna vinstra megin. Hann tók á sprettinn inn völlinn og í átt að vítateignum þar sem hann kom sér í skotfæri, lét vaða á markið og boltinn endaði í netinu neðarlega hægra megin. Glæsilegt mark hjá Chopart, 1 – 0.

Skagamenn voru ekki mjög hættulegir eftir þetta og ekki margt sem benti til þess að þeir myndu skora mark. Það gerðist þó á 83. mínútu þegar Skagamenn fengu víti. Garðar Gunnlaugsson hafði gert vel á vinstri kantinum og náð fyrirgjöf inn í sem Ásgeir Marteinsson tók á móti og skaut að marki. Boltinn fór af stuttu færi í hönd Gunnars Þórs Gunnarssonar og víti réttilega dæmt. Úr vítinu skoraði Garðar Gunnlaugsson 1 – 1.

Á lokasekúndu leiksins upplifðu stuðningsmenn ÍA augnablik sem mun líklega seint renna þeim úr minni. Árni Snær Ólafsson negldi boltanum fram völlinn í átt að Tryggva Hrafni Haraldssyni. Stefán Logi, markmaður KR, kom út úr markinu og skallaði boltann í burtu. Boltinn barst á Garðar Gunnlaugsson sem negldi boltanum upp í hornið á markinu með viðstöðulausu skoti. Lokatölur 1 – 2 fyrir ÍA og vonbrigði KR halda því áfram.

Líkar þetta

Fleiri fréttir