Kristmundur Sumarliðason skipveri á dragnótarbátnum Sveinbirni Jakobssyni SH í lest bátsins. Ljósm. úr safni: af.

Hafrannsóknastofnun metur fiskistofna í jafnvægi

Hafrannsóknastofnun kynnti í dag skýrslu sína um ástand fiskistofna og aflahorfur fyrir næsta fiskveiðiár. Ráðherrar sjávarútvegsmála hafa á liðnum árum farið að mestu eftir veiðiráðgjöfinni og því má telja líklegt að kvóti næsta árs verði í samræmi við áætlað mat Hafró og núverandi fiskveiðiár. Lagt er til að aflamark þorsks verði 244 þúsund tonn á fiskveiðiárinu 2016/2017 eða fimm þúsund tonnum meira en á yfirstandandi fiskveiðiári. Hrygningarstofn ýsu er talinn hafa minnkað á undanförnum árum en er engu að síður yfir varúðar- og aðgerðarmörkum aflareglu. Stofnunin leggur til að aflamark verði 34,6 þúsund tonn á fiskveiðiárinu 2016/2017 sem er 1,8 þúsusund tonnum minna en aflamark yfirstandandi fiskveiðiárs. Lagt er til að aflamark ufsa verði 55 þúsund tonn sem er það sama og núverandi fiskveiðiárs. Lagðar eru til veiðar á 52,8 þúsund tonnum af gullkarfa sem er 1,8 þúsund tonnum meira en á yfirstandandi tímabili. Loks er lagt til að leyfðar verði veiðar á 63 þúsund tonnum af síld, átta þúsund tonnum minna en á yfirstandi fiskveiðiári.

„Almennt má segja að flestir okkar nytjastofnar séu í ágætu jafnvægi og nýting þeirra hófleg, þannig að breytingar í stofnstærð og ráðgjöf markast af óvissu í vexti og stærð uppvaxandi árganga,“ segir í skýrslu Hafró.

Líkar þetta

Fleiri fréttir