Norðurálsmótið fer fram helgina 10.-12. júní. Ljósm. úr safni.

Norðurálsmótið viku fyrr en vanalega

Norðurálsmótið í fótbolta fer fram um næstu helgi, dagana 10. – 12. júní. Mótið er eins og fyrri ár fyrir drengi á aldrinum sex til átta ára. Sú breyting er á að mótið í ár er haldið aðra vikuna í júní en ekki þá þriðju eins og venjan hefur verið. „Ástæðan fyrir því að við höldum mótið núna viku fyrr en vanalega er sú að eftir EM-dráttinn í lok síðasta árs fóru mörg félög að þrýsta á okkur að breyta tímasetningu mótsins þar sem Norðurálsmótið myndi skarast við EM. Við ákváðum því að færa mótið um viku en þetta er bara undantekning í ár,“ segir Haraldur Ingólfsson framkvæmdarstjóri Knattspyrnufélags ÍA í samtali við Skessuhorn.

Mikil undirbúningsvinna liggur að baki mótinu og koma hátt í 1000 manns að því með einum eða öðrum hætti. „Undirbúningurinn fyrir mótið hefur gengið vel og allt samkvæmt áætlun. Það er komin svo mikil reynsla á mótið að við erum orðin öllu vön í undirbúningnum,“ segir Haraldur en mótið hefur verið haldið frá árinu 1985. Í ár eru um 1500 keppendur skráðir sem er svipuð tala og í fyrra. Áætlað er að fimm til sex þúsund manns sæki Akranes heim í tenglsum við mótið. „Við stækkuðum mótið í fyrra og höldum þeirri stærð í ár. Það eru 176 lið skráð til leiks frá 33 félögum.

 

Lið frá Nuuk á mótinu

Frá því mótið var fyrst haldið árið 1985 hafa einungis innlend lið keppt á því en nú verður breyting. „Það kemur eitt félag frá Nuuk í Grænlandi, B67, á mótið og mun því verða fyrsta erlenda félagið til þess að leika á mótinu. Upphaflega stóð til að það kæmu tvö félög en annað félagið hætti við. Við höfum í raun ekki markaðssett mótið erlendis enda ekki þörf á því en B67 kemur hingað til lands í gegnum samstarf sem er á milli Grænlands, Færeyja og Íslands. Það verður gaman að fá þessa góður gesti á Skagann,“ segir Haraldur að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir