Ætlaði ekki að verða antík um borð

Jón Snorrason í Grundarfirði fór ungur til sjós, enda segir hann fátt annað hafa komið til greina. Hann fæddist og ólst upp í Hrísey og byrjaði 14 ára gamall á handfærum, en fór svo á línu og net á trillum úr eyjunni. Þetta var árið 1958, en þremur árum síðar tók líf hans nýja stefnu á örlagaríkum fundi í Hrísey. „Ég var nýbyrjaður á Harðbaki, síðutogara á Akureyri. Ákveðið var að fiska í siglingu, en það var svo lélegt fiskerí að það var ákveðið að koma við í Hrísey og kaupa fisk til að sigla með. Þá hitti ég Magnús mág minn og hann spurði hvort ég vildi ekki pláss á vertíð frá Grundarfirði og ég var til í það. Hann sagði þá að vel gæti farið að ég þyrfti að koma strax á hausíldina, ætlaði ég að fá plássið. Ég sagði honum að senda mér skeyti, en það yrði að vera með sólarhringsfyrirvara. Við vorum svo á heimleið úr siglingunni þegar ég fékk skeytið og var sagt að koma strax. Þetta var í september 1961 og ég er búinn að vera í Grundarfirði síðan.“

Í Grundarfirði hitti Jón siglfirska stúlku, Selmu Friðfinnsdóttur. Hún hafði nú séð hann á Sigló, en þau kynntust í Grundarfirði árið 1963 þegar þau voru saman á dansnámskeiði. „Hún hafði gleymt skónum sínum og ég skutlaði henni heim til að ná í dansskóna. Ég heillaði hana því ekki upp úr skónum, heldur í þá. Síðan eru liðin 53 ár hjá okkur saman og 52 ár síðan við giftum okkur.“

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar

Líkar þetta

Fleiri fréttir