Krefjast þess að námslánafrumvarp fari á dagskrá Alþingis

„Þar sem frumvarp um námslán og námsstyrki var tekið af dagskrá Alþingis í dag, fundum við í Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri okkur knúin til að setja fram ályktun fyrir hönd nemenda við HA. Eins vitum við til þess að HÍ og HR eru á sömu skoðun hvað þetta mál varðar og því viljum við í sameiningu pressa á þingmenn að endurskoða málið. Þessa ályktun höfum við nú þegar sent á alla þingmenn Alþingis: „Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri (FSHA) krefst þess að forseti Alþingis setji frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra á dagskrá þingsins fyrir sumarhlé til þess að hægt verði að koma málinu í lýðræðislegt umsagnarferli í þingnefndum yfir sumarið. Um er að ræða viðamikið frumvarp og því er ótækt að formlegu samráðsferli við stúdenta og aðra hagsmunaaðila verði frestað fram yfir sumarhlé Alþingis.“

Þá segir í ályktun stúdenta við HA að íslenskir stúdentar hafa lengi kallað eftir því að horft verði til Norðurlanda þegar kemur að stuðningi til náms hér á landi. „Ljóst er að frumvarpið felur í sér mikilvæg og jákvæð skref í þá átt, þó að FSHA áskilji sér allan rétt til að koma að frekari athugasemdum um einstök atriði frumvarpsins síðar. Málið varðar framtíðarhagsmuni íslenskra stúdenta og því skorar FSHA á þingenn að verða við þessari ósk.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir