Tjaldsvæðið í Kalmansvík. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Tjaldsvæðið var opnað fyrir Hvítasunnu

Tjaldsvæðið við Kalmansvík á Akranesi var formlega opnað á föstudaginn. Fyrstu gestirnir mættu hinsvegar á svæðið kvöldið áður og voru búnir að koma sér vel fyrir tímanlega fyrir hvítasunnuhelgina. Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra verða í sumar starfsmenn sem koma a.m.k. tvisvar á dag til að sinna þjónustu á svæðinu sem felur í sér ræstingar og innheimtu. Auk þess hefur aðstaða verið bætt talsvert. „Farið hefur verið í úrbætur á aðstöðu, meðal annars á salernum þar sem skipt var um dúka, klósettkassa og sturtur. Að utan var húsið málað og borið var á pallinn fyrir framan. Í þjónustuhúsinu voru kantar, gluggar og þakrennur málaðar. Verið er að vinna að lagfæringu á pallinum fyrir framan þjónustuhúsið og mun það klárast eftir helgina. Garðyrkjustjóri og nemendur í Vinnuskóla Akraness munu sjá um að fegra umhverfið með blómum og slætti og einnig verður sett upp nýtt upplýsingaskilti sem staðsett verður á bakhlið þjónustuhússins,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri. Hún bætir því við að tjaldsvæðið verður opið til 15. september og að bæjarráð hafi nýlega samþykkt gjaldskrá.

Líkar þetta

Fleiri fréttir