Fjórir í framboði til formanns Samfylkingarinnar

Framboðsfrestur vegna formannskjörs Samfylkingarinnar rann út á hádegi síðastliðinn laugardag og verða fjórir í kjöri. Eins og fram kom í fréttum daginn áður, dró núverandi formaður; Árni Páll Árnason, framboð sitt til baka. Í framboði til formanns Samfylkingar verða: Guðmundur Ari Sigurjónsson æskulýðsfulltrúi og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi, Helgi Hjörvar þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Magnús Orri Scram ráðgjafi og varaþingmaður Samfylkingarinnar og Oddný Harðardóttir þingkona Samfylkingarinnar.

Að þessu tilefni hófu formannsframbjóðendurnir fjórir sameiginlega fundaferð um landið. Þeir mættust á opnum fundi á Akureyri þar sem kjördæmisráðsfundur fór fram, kynntu stefnumál sín og svöruðu spurningum. Kom fram ólík sýn frambjóðendanna á það hvernig Samfylkingin megi ná betri árangri. Héldu frambjóðendurnir stuttar ræður, kynntu sig og áherslu mál sín.

Fyrstur var Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, sem lagði áherslu á kjör ungs fólks og spurði hvort ætti að láta fyrirsjánlegt góðæri næstu ára verða að ofsagróða fárra eða verða til þess að jafna kjörin og skapa ungu fólki tækifæri til að koma sér þak yfir höfuðið.

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Helgi Hjörvar, lagði í máli sínu áherslu á nauðsynlegar stefnubreytingar og var hann einn frambjóðenda sem taldi nauðsynlegt að Samfylkingin breytti stefnumálum sínum. Hann sagði annað hafa þegar verið reynt en nú þyrfti að breyta til og lagði hann áherslu á afnám verðtryggingar og vaxtaokurs. Það væru mál sem vörðuðu venjulegt fólk. Þá tilkynnti Helgi að ef hann næði kjöri til formanns, myndi hann ekki sækjast eftir fyrsta sæti á lista síns kjördæmis.

Magnús Orri Schram, varaþingmaður, lagði í máli sínu áherslu á nútímavæðingu Samfylkingarinnar. Sagði hann Samfylkinguna þurfa að kalla til nýtt fólk og finna sér nýja málsvara til þess að ná til unga fólksins. Stækka þurfi hópinn og til þess þurfi að gera stórar og umfangsmiklar breytingar á starfi flokkins, sem þurfi að birtast fólki jákvæður og bjartur.

Síðust steig á stokk Oddný Harðardóttir, þingkona, sem einnig ræddi ásýnd flokksins. Sagði hún mikilvægt að tala fyrst og mest um jafnaðarmannastefnuna en ekki um aðra flokka. Hún sagði Samfylkingarfólk þurfa að tala um sín hjartans mál, tala skýrt og vera kappsöm. Hún lagði áherslu á að bæta þurfi heilbrigðisþjónusta og að nota eigi skatta til að jafna kjör almennings.

Líkar þetta

Fleiri fréttir