Eva Hlín.

Eva Hlín ráðin verkefnastjóri Unglingalandsmóts

 

Eva Hlín Alfreðsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ sem fram fer í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Hún mun vinna að skipulagningu mótsins með Ómari Braga Stefánssyni, landsfulltrúa og framkvæmdastjóra landsmóta UMFÍ. Eva Hlín er á heimavelli í Borgarnesi en hefur búið í Borgarbyggð undanfarinn áratug. Hún lauk námi í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst með áherslu á markaðssamskipti vorið 2015. Þar af var hún eitt ár í skiptinámi í Otaru í Japan. Þangað flutti hún með manni sínum og tveimur börnum. Þriðja barnið fæddist ytra.

Eva Hlín kveðst spennt fyrir verkefninu. „Það er gaman að fá tækifæri til að taka þátt í stóru og mikilvægu innanbæjarverkefni á borð við Unglingalandsmót UMFÍ. Það eru mörg tækifæri í Borgarnesi og nauðsynlegt að fá bæjarbúa til að taka þátt í þessu skemmtilega og jákvæða verkefni,“ segir hún.

Unglingalandsmót UMFÍ eru vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð sem haldin er um verslunarmannahelgina á hverju ári. Mótin eru haldin til skiptis víðsvegar um landið. Unglingalandsmót er opið öllu ungu fólki á aldrinum 11-18 ára. Allir geta tekið þátt í mótinu, óháð hvort viðkomandi er í einhverju íþróttafélagi eða ekki. Mótsgjald er 7.000 krónur á hvern einstakling 11-18 ára sem skráir sig til keppni. Í Borgarnesi er ljómandi góð keppnisaðstaða fyrir allar keppnisgreinar og mörg keppnissvæði liggja mjög þétt. Skráning á mótið hefst 1. júlí 2016 og lýkur um miðnætti laugardaginn 23. júlí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir