Vegina í forgang

Bjarni Jónsson

Það fróðlega við að taka þátt í forvali VG nú á síðustu vikum sumars er að fara um hið víðfeðma Norðvesturkjördæmi og hitta fólk. Allt frá Hvalfjarðarbotni um Akranes, Borgarfjörð, Snæfellsnes og Dali , um Vestfirði til Ísafjarðar, um Strandir, Hólmavík í Árneshrepp, um Húnavatns- og Skagafjarðasýslur, norður í Fljót að austan. Og þótt Hvalfjarðargöngin séu góð og ómissandi samgöngubót sem hluti af þjóðvegakerfinu, verður enn að greiða sérstakt gjald fyrir að aka þau eins og skatt til að komast til höfuðborgarinnar.

Ég hef farið víða um landið á undanförnum árum starfs míns vegna og þekkti því vegalengdirnar af eign raun. Það er stundum sagt að stjórnmál snúist um að tala – og það kann að vera satt upp að ákveðnu marki. En að mínu viti er oft mikilvægara að hlusta. Er mér það fullljóst að til þess að geta talað máli íbúanna í vegabótum, flugsamgöngum, póstflutningum heilbrigðismálum eða skólamálum verður maður að fara til fólksins, aka vegina þar til þeir enda. Og það hef ég reynt að gera.

 

Holóttir og harðið malarvegir

Í Norðvesturkjördæmi er fyrsta umræðuefnið ávallt samgöngur, eða vegirnir öllu heldur. Þetta á einkum við um þá sem búa fjarri meginsamgönguæðunum – s.s. eins og þjóðvegi 1, eða hringveginum, sem liggur í gegnum kjördæmið.

Norðvesturkjördæmið er víða strjálbýlt og langt á milli byggða. Og oftar en ekki eru það mjóir holóttir malarvegir sem tengja fólk fram með fjörðum, kringum fjöll inn til dala og yfir heiðar. Þessum vegum hefur lítt eða ekki verið haldið við síðustu ár – enda hafa framlög til vegamála aðeins verið um helmingur þess sem var t.d. fyrir árið 2008. Það gerist þrátt fyrir að tekjustofnar ríkisins af eldsneyti, bílum og umferð sem renna eiga til samgöngumála samkvæmt lögum hafi margfaldast. Þeir peningar fara annað.

Þeir litlu fjármunir sem hefur verið varið í vegakerfið hafa runnið til stórra umferðamannvirkja en ekki til hinna dreifðu byggða. Mikil fjölgun ferðamanna hefur einnig margfaldað umferðina á þessum vegum og aukið slitið á þeim. Þannig hafa þeir látið verulega á sjá á síðustu árum, holóttir, harðir malarvegir og stórhættulegir í sívaxandi umferð.

 

Vegirnir eru lífæðar byggðanna

En þessir héraðs- eða sveitavegir eru jafnframt lífæðar heilu byggðarlaganna, börnum ekið daglega í skóla og fólk sækir vinnu til næstu þéttbýlisstaða.

Viðmælendur mínir höfðu margir á orði að þingmenn eða frambjóðendur sæjust sumir aldrei en aðrir sjaldséðir. Það væri þá helst fyrir kosningar. Þá væru þeir ósparir á loforðin: Bundið slitlag hér og bætt heilsugæsla annars staðar og aukið framlag til skóla þar. Síðan að loknum kosningum er loforðið fyrnt eða því er svarað til „að ekki hafi fengist stuðningur til þess að koma því í framkvæmd“. Einn viðmælandi orðaði þetta svo að kosningar hefðu ekki orðið til þess að bæta við neinum malarhlössum á veginn heim til hans. Svo mörg voru þau orð. Ekki ætla ég að dæma um það.

 

„Ég segi fyrir mig“

Þar sem ég hef hlustað á þessi orð hefur mér stundum orðið hugsað til afa míns og nafna, Bjarna Jónssonar bónda á Asparvík á Ströndum og síðar á Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Það var viðkvæði afa í samtölum við fólk: „ég segi aðeins fyrir mig“. Og trúr þessu viðhorfi byggði hann brú yfir Fossá í Asparvíkurdal árið 1950 eða um tíu árum áður en vegur var lagður. Þetta gerði hann að eigin frumkvæði og brúin var í notkun allt fram á þessa öld. Afa mínum fannst betra að segja ekki meir en hann gæti staðið við.

Það þarf stórátak í vegamálum, tekjustofnar og peningar eru fyrir hendi. Vilji og skilningur er allt sem þarf.

Ég treysti mér ekki til þess að byggja brýr með malarskóflu og sementi einu saman. Hins vegar „segi ég aðeins fyrir mig“ að ég treysti mér til þess að bera fram óskir fólks úr hinum dreifðu byggðum um bætt vegakerfi við fjárveitingarvaldið „fyrir sunnan“ og fylgja þeim eftir.

 

Bjarni Jónsson

Höf. býður sig fram til að leiða lista VG í Norðvesturkjördæmi