Um lífeyrismál

Guðmundur Þorsteinsson

Í Skessuhorni 17. maí fjalla tveir menn um íslensku lífeyrissjóðina, þeir Hafsteinn Sigurbjörnsson (HS) og ritstjórinn (MM). Finna þeir kerfinu flest til foráttu og eru býsna stórorðir. Hjá HS gætir þess misskilnings að atvinnuleysisbætur séu greiddar úr ríkissjóði, en þær eru reyndar fjármagnaðar með tryggingagjaldi sem launagreiðendur greiða. Báðir liggja þeir sjóðunum á hálsi fyrir að beita ekki áhrifum sínum sem hluthafar í HB Granda til að hindra uppsagnir í fiskvinnslunni á Akranesi. Í lokin segir HS: “Þetta plott lífeyrissjóðanna með lífeyri landsmanna er viðbjóður og verra en harðsvíraðir vogunarsjóðir leika sem einskis svífast í starfsemi sinni.“

MM gefur í skyn að kostnaður vegna umsjónar með íslenska lífeyrissjóðakerfinu þurfi: „ ekki að vera meiri en sem nemur launum einnar þýskrar, miðaldra konu“. Vitnar hann þar í mann sem hann þekkir sem hitti þýskan ferðamann, konu sem kvaðst ein og óstudd annast lífeyrismál 250 þúsund starfsmanna nokkurra fyrirtækja. Óneitanlega væri fróðlegt að fá dálítið fyllri og meira traustvekjandi upplýsingar um þetta mál.

Síðan segir MM: “Það er fyrir margt löngu sem flestir landsmenn gerðu sér ljóst að íslenskir lífeyrissjóðir eru ekki að gera neitt fyrir íslenskan almenning“ og „Hegðun íslenskra lífeyrissjóða á markaði með fyrirtæki er auk þess þannig að í mínum huga eru lífeyrissjóðirnir í núverandi mynd orðnir helstu andstæðingar eigenda sinna“.

Hér þykir mér heldur betur stungin tólgin og stóryrðin ekki spöruð. En hvað segja aðrar og traustari heimildir? Í mars s.l. kom út skýrsla á vegum Landssambands lífeyrissjóða sem er að mestu byggð á úttekt OECD 2015. Þar er þessa töflu að finna:

Þarna spila saman tvö kerfi, þ.e. lífeyrissjóðirnir og almannatryggingarnar og koma sem sagt Íslandi í fremstu röð eða með bestan árangur. Nú er rétt að hafa þann fyrirvara að þetta kann að vera að einhverju leyti valinn samanburður en hann hlýtur þó að vera marktækur svo langt sem hann nær.

Það hefur lengi verið mikið rætt álitamál hvort lífeyrissjóðir eigi að taka virkan þátt í stjórnum þeirra fyrirtækja sem þeir hafa fjárfest í. Flestir hafa hallast að því að mjög varlega eigi að fara í þeim efnum og er sú stefna almennt ríkjandi. Fremur eigi að hafa áhrif með því að minnka hlutdeild í þeim fyrirtækjum sem fara fram með óæskilegum hætti. Er ég því sammála. Að þessu víkur Þórður Snær Júlíusson í ágætri grein á www.kjarninn.is: „Baráttan um tryggingafélögin og milljarðana þeirra“.

Oft er deilt á kostnað við rekstur lífeyrissjóðanna og er það auðvitað eilíft viðfangsefni að halda honum sem lægstum en augljóst er að umsýsla með 3,5 milljarða eignasafn er ekki einfalt mál. Í því efni eru tvær leiðir færar eða blanda beggja, þ.e.: 1. Að fela fjármálafyrirtækjum að annast ávöxtun eignasafnsins eða: 2. Að starfsfólk sjóðsins sjái um hana. Fyrri leiðin útheimtir greiðslur þóknana til umsjónaraðila, en hin síðari að starfrækja deild til greiningar á fjárfestingakostum, sem kostar þá auknar launagreiðslur.

Skv. upplýsingum Fjármálaeftirlitsins hefur árlegur rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna verið um 0,26% af eignum þeirra síðasta áratug eða svo.

MM minnir á að lífeyrissjóðirnir töpuðu verulegum upphæðum við hrunið 2008 og að „enginn axlaði ábyrgð.“ Í því sambandi gleymist gjarna að hrein raunávöxtun sjóðanna (þ.e. heildarávöxtun mínus rekstrarkostnaður og vísitöluhækkun) árin 2004-2007 var gríðarleg og fór uppí 9% 2007 (FME) og var rúmlega 3% að meðaltali árin 2003-2012 þrátt fyrir tapið í hruninu.

Í baksýnisspeglinum má auðvitað sjá að farsælla hefði verið að byggja eignasöfnin upp með ríkisskuldabréfum og erlendum fjarfestingum en þá hefðu sjóðirnir líka misst af uppsveiflunni 2004-2007 og eflaust verið skammaðir fyrir að styðja ekki við íslenskt atvinnulíf.

Það er semsagt auðvelt að finna efni til aðfinnslna á starfrækslu lífeyrissjóðanna enda óspart notað og löngum af hvorki þekkingu né sanngirni.

Þótt ýmislegt megi betur fara í rekstri og uppbyggingu lífeyrissjóðanna má hiklaust fullyrða að við Íslendingar erum afar lánsamir að búa nú við eitt besta lífeyrissjóðakerfi sem þekkist og er enda öfundarefni annarra þjóða. Það er ámælisvert óþurftarverk að tala þetta kerfi niður með þeim hætti sem hér er gert að umtalsefni og ekki sæmandi mönnum sem vilja taka þátt í umræðu um þjóðfélagsmál af einhverri alvöru.

 

Guðmundur Þorsteinsson.