Um Hvanneyri og „ættarblessun“ Bjarnarhafnar

Bjarni Jónsson

Það hefur oft verið haft á orði að fólk í minni föðurfjölskyldu gæti aðeins fengist við tvær starfsgreinar;  líffræði eða landbúnað en þó sumir kennslu.  Kannski myndu sumir kalla það blessun en aðrir örlög, en víst er af 10 börnum afa míns og ömmu – þeirra Bjarna Jónssonar og Laufeyjar Valgeirsdóttur í Bjarnarhöfn – hafa öll lagt stund á þessar tvær greinar með einum öðrum hætti og hið sama á við um stóran hluta afkomenda þeirra. Ég að vísu byrjaði starfsferillinn sem fjárbóndi í Bjarnarhöfn en hann endaði skyndilega þegar ég var 15 ára og við fjölskyldan fluttum norður í Skagafjörð árið 1981 þegar faðir minn varð skólastjóri á Hólum í Hjaltadal. Ég hélt þá að ég væri laus við ættarfylgjuna.

Þannig lauk ég háskólapróf í sagnfræði með áherslu á viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. En svo fór þó að lokum að ég endaði sem fiskifræðingur eftir að hafa lokið framhaldsnámi í fiskifræði frá Oregon í Bandaríkjunum. Ég er því einn af hinum fjölmörgu afkomendum Bjarna Jónssonar í Bjarnarhöfn sem annað hvort leggur stund á líffræði eða landbúnað.

 

Búsetan á Hvanneyri

Það er því ekki að undra – í ljósi ofangreindrar ættarfylgju – að Hvanneyri hafi sérstakan sess fyrir stórfjölskylduna mína. Þar hafa  mörg af  frændfólki mínu búið til lengri og skemmri tíma og stundað nám, kennslu, matseld og bússtjórn.  Ég sjálfur bjó á staðnum fyrst einn vetur – nánar tiltekið í íbúð á lofti gamla fjóssins  þegar faðir minn var við nám  við skólann. Móðir  segir stundum að ég hafi lært að segja mu áður en ég fór að tala. En vitaskuld var vel hljóðbært í byggingunni.

En síðar bjó ég í Steinbæ er faðir minn kenndi á Hvanneyri.  Ég á ákaflega góðar minningar frá Hvanneyri þótt ungur væri.  Er mér sérstaklega minnisstæður  ráðsmaðurinn Guðmundur Jóhannsson, ráðsi  sem var alveg einstaklega barngóður.

 

Landbúnaðarsafn Íslands

Þegar ég kom að Hvanneyri í sumar var litla íbúðin á fjósloftinu orðin að lítilli bóksölu en kýrnar á brott úr fjósinu – þess í stað er nú stærsta landbúnaðarsafn landsins með fjölda traktora og verkfæra úr aldagamalli sögu landbúnaðar og byggðar á Íslandi. Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri er afar fræðandi og vel upp sett safn og lofsvert framtak. Í mjólkurhúsinu gamla er nú ullarvara og handverksbúð.

Eins og áður segir flutti ég norður til hins búnaðarskólans – á Hólum  í Hjaltadal– árið 1981 og þar átti ég heima lengst af uns ég settist að á Sauðárkróki þar sem ég bý nú. Auk þess að hafa kennt um tíma við Hólaskóla, er ég einnig formaður skólanefndar Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og þekki því af eigin reynslu hve menntastofnanir skipta miklu fyrir landsbyggðina.

 

Að vernda , nýta og treysta á landið

Íslendingar hafa alltaf treyst á landið – sem hefur  launað þeim vel ef þjóðin hefur staðið rétt að málum. Svo er enn í dag.

Tímarnir, tæknin og afurðirnar breytast – en kjarninn er sá sami. Nú nýta sumir landið með ferðaþjónustu, aðrir með líftækni og enn aðrir til listsköpunar og síðan þau sem fara hefðbundnari leiðir.  Öll erum við bændur inn við beinið – og það sem ég í hálfkæringi kallaði „ættarfylgju Bjarnarhafnar“ á raunar við landsmenn alla sem eru  beint eða óbeint upp á landið og lífríki þess komnir, sama í hvaða virðiskeðju þeir starfa.

En það að  vernda og nýta landið snýst að miklu leyti um þekkingu og hugvit – og þess vegna skiptir Landbúnarháskóli Íslands á Hvanneyri svo miklu máli sem menntastofnun – ekki aðeins fyrir Vesturland heldur landið allt.

 

Háskólarnir á landsbyggðinni

Á Vesturlandi eru raunar margar öflugar menntastofnanir – því hef ég sjálfur fengið að kynnast af eigin raun nú á síðustu misserum þar sem ég hef stundað nám í stjórnun við Háskólann á Bifröst. En best heppnaðasta byggðastefna síðari ára var að færa menntun í heimabyggð.

 

Bjarni Jónsson

Býð mig fram til að leiða lista Vg í Norðvesturkjördæmi